Uppbygging og rekstur meðferðarstofnana

Miðvikudaginn 18. febrúar 2004, kl. 14:38:43 (4356)

2004-02-18 14:38:43# 130. lþ. 66.5 fundur 512. mál: #A uppbygging og rekstur meðferðarstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum árum hafði ég forgöngu um það að biðja um skýrslu frá hæstv. heilbrrh. varðandi stöðu meðferðarheimila í landinu. Tilefni þess að ég fór fram á þessa skýrslu var það að mér hafði sýnst við nokkra skoðun að talsvert óljóst væri hvernig staðið væri að uppbyggingu meðferðarstofnana í landinu. Mér var alls ekki ljóst hver hefði frumkvæðið í þessum efnum en hins vegar varð mér ljóst að mjög oft var í framhaldinu leitað til hins opinbera og það krafið um fjármagn til þess að standa undir stofnkostnaði og rekstri þessara meðferðarstofnana.

Þessi skýrsla var síðan lögð fram og eftir að ég hafði farið yfir hana varð niðurstaðan sú að leggja fram þáltill. sem að stóðu hv. þm. Ásta Möller, Hjálmar Árnason, Þuríður Backman og Guðrún Ögmundsdóttir ásamt mér. Í þessari þáltill. var á grundvelli skýrslunnar ályktað að fela ríkisstjórninni að setja á laggirnar nefnd sem hefði það hlutverk að móta heildarstefnu um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana. Jafnframt skyldi gert árangursmat á meðferðarstofnunum og meðferðarleiðum til að tryggja sjúklingum sem mestan árangur og sem besta nýtingu fjárveitingar til málaflokksins.

Við þekkjum öll, því miður, dæmi um neikvæðar afleiðingar af neyslu áfengis og vímuefna og við vitum að hið opinbera hefur varið mjög verulegu fjármagni til þess að stuðla að meðferðarúrræðum. Þess vegna skiptir mjög miklu máli í fyrsta lagi að þessum peningum sé mjög vel varið og þannig staðið að þessu að það skili sem allra mestum árangri. Við viljum auðvitað ná árangri í baráttunni við þennan mikla vágest sem vímuefnin og áfengið eru.

Þegar við skoðum þróunina varðandi rekstur áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana sjáum við að mjög mikið hefur gerst. Í fyrsta lagi kom fram í þessari skýrslu að það kunni að vera um að ræða 30 stofnanir, heimili eða deildir sem með einum eða öðrum hætti sinna þessum verkefnum.

Það kom líka fram að á árinu 2000, sem þá var nýjasta árið sem ég hafði og lá til grundvallar þessari skýrslu, næmu framlög ríkissjóðs til meðferðarstofnana af hvaða tagi sem væri 713 millj. kr. Nú hef ég ekki athugað hvernig þróunin hefur verið frá því að þessi skýrsla var lögð fram en mig grunar að það hafi frekar hækkað en lækkað. Þarna var um að ræða hækkun upp á ríflega 40% að raungildi.

Í svari hæstv. ráðherra við sambærilegri fyrirspurn fyrir nokkru kom fram að unnið væri í þessum efnum á grundvelli þáltill. sem var samþykkt og þá var gert ráð fyrir að nefndin sem vinnur að þessu máli mundi skila frá sér áfangaskýrslu fyrir síðustu áramót. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. heilbrrh.:

,,Hvað líður störfum nefndar sem vinnur að mótun heildarstefnu um uppbyggingu á sviði áfengis- og vímuefnameðferðar og þátttöku ríkisins í stofnkostnaði og rekstri meðferðarstofnana?``