Málefni Palestínumanna

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 10:41:56 (4381)

2004-02-19 10:41:56# 130. lþ. 68.94 fundur 341#B málefni Palestínumanna# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Því miður er ekki víst að það stoði mikið að komast að þeirri niðurstöðu að bygging aðskilnaðarmúrsins brjóti alþjóðalög og gegn ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Sagan sýnir að Ísraelsríki hefur í skjóli Bandaríkjamanna liðist að hunsa bæði alþjóðalög og brjóta ítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Þar er á ferðinni einhver augljósasti tvískinnungur alþjóðastjórnmála sem við hverjum manni blasir.

Þannig háttar til, herra forseti, að 11. mál á dagskrá þessa fundar fjallar einmitt um það sem hér er til umræðu utan dagskrár, þ.e. stöðu mála í Palestínu. Þar vísa ég til till. til þál. sem ég flyt ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni um að Alþingi mótmæli byggingu aðskilnaðarmúrsins í Palestínu. Það væri ánægjulegt ef hæstv. utanrrh. gæti einnig verið viðstaddur þá umræðu síðar í dag og að sjálfsögðu hv. málshefjandi í þessari umræðu einnig, en honum virðist ekki kunnugt um tilvist tillögunnar.

Efni tillögu okkar er þríþætt. Að mótmæla byggingu aðskilnaðarmúrsins, þess sem Alþjóða Rauði krossinn hefur í einstæðri samþykkt lýst brjóta í bága við alþjóðalög. Í öðru lagi að Alþingi ítreki hina merku ályktun frá 18. maí 1989 og í þriðja lagi að íslensk stjórnvöld móti þá stefnu að styðja að alþjóðlegt friðargæslulið verði sent á svæðið.

Hefðin er sú að Alþingi Íslendinga hefur mótað mjög skýra leiðsögn fyrir ríkisstjórn Íslands til að fara eftir. Þar ber hæst tímamótaályktun Alþingis frá 18. maí 1989 þar sem Alþingi Íslendinga skipaði sér í fremstu röð þjóðþinga með framsækinni stefnu í þessum efnum. Ríkisstjórnir hefðu síðan gjarnan mátt beita sér harðar í málinu í samræmi við þessa eindregnu afstöðu Alþingis, t.d. gegn Bandaríkjamönnum sem hafa með pólitískum og fjárhagslegum stuðningi sínum gert Ísraelsríki kleift að fara sínu fram, því miður.