Málefni Palestínumanna

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 10:57:48 (4389)

2004-02-19 10:57:48# 130. lþ. 68.94 fundur 341#B málefni Palestínumanna# (umræður utan dagskrár), GÖg
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[10:57]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Frelsissvipting og mannréttindabrot eru daglegt brauð í Palestínu. Staða kvenna, barna og fjölskyldna er afar bágborin, skólaganga af skornum skammti, skortur er á öllum helstu nauðsynjum og búa fjölskyldur við afar þröngan kost, ferðafrelsi er skert og atvinna lítil og atvinnuleysi mikið. Lífsbjörgin hefur verið tekin og mannréttindi fótum troðin.

Er þetta sá veruleiki sem við viljum styrkja eða ætlum við að skera upp herör gegn þessu ástandi? Ferðafrelsið eða skortur á því minnir á þá tíma sem voru í Suður-Afríku forðum. Þá reis heimurinn upp og mótmælti, allir voru sammála um að við svo búið mætti ekki standa. Heimurinn þarf líka að rísa upp núna eins og þá. Heimurinn reis líka upp og gladdist, og fólk fór út á götur og fagnaði falli Berlínarmúrsins. Heimurinn þarf líka aftur að fella múra. Aldrei hefur verið meiri þörf á því en nú að mótmæla byggingu öryggismúrsins sem Ísraelsmenn reisa á Vesturbakka Jórdanar. Öryggismúrinn er brot á alþjóðalögum um mannréttindi og með því að reisa múrinn að hluta til á landi Palestínumanna gengur Ísraelsstjórn freklega á hlut hernumins ríkis samkvæmt alþjóðamannréttindalögum. Genfarsamningurinn er ekki virtur á hernumdu svæðunum.

Alþjóða Rauði krossinn hefur gefið út yfirlýsingu vegna þessa og segir að múrinn loki þúsundir Palestínumanna inni og hindri aðgang þeirra að grundvallarþjónustu svo sem vatni, heilsugæslu og menntun. Hann spilli afkomumöguleikum. Ekki var á það bætandi.

Alþjóðasamfélagið með Ísland innan borðs á að skera upp herör gegn þessu. Ekki fleiri Berlínarmúra til að fótumtroða mannréttindi.

Virðulegi forseti. Sjálfsákvörðunarréttur palestínsku þjóðarinnar var viðurkenndur á Alþingi Íslendinga 1989 svo og tilveruréttur Ísraels. Einnig var viðurkenndur réttur palestínskra flóttamanna til þess að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Friður mun aldrei komast á fyrr en þessir aðilar setjast við samningaborðið sem jafningjar.