Flutningur Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja

Fimmtudaginn 19. febrúar 2004, kl. 16:51:44 (4471)

2004-02-19 16:51:44# 130. lþ. 68.13 fundur 300. mál: #A flutningur Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja# þál., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 130. lþ.

[16:51]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni, 1. flm. þessarar þáltill., fyrir að endurvekja þetta mál. Eins og fram kom hjá honum í upphafi flutti hv. þm. Árni Ragnar Árnason tillögu þessa efnis fyrir margt löngu.

Að þáltill. standa flutningsmenn úr fjórum flokkum, úr Framsfl., Sjálfstfl., Samf. og Frjálsl. Ég leyfi mér að binda við það vonir, úr því að þetta er nánast þverpólitísk tillaga, að hún hljóti snögga afgreiðslu í allshn. og málið verði þar ekki tafið frekar en brýnasta þörf er á.

Hv. þm. Hjálmari Árnasyni greindi frá því að gert var ráð fyrir að úttektinni ætti að ljúka 15. febrúar árið 2004, samkvæmt þeirri ályktun sem hér liggur fyrir. Sá tími er að sjálfsögðu liðinn og ég held að hv. allshn. þurfi ekki að taka sér mjög langan tíma í afgreiðslu þessa máls. Raunveruleg skoðun gæti farið fljótlega af stað og við komist að því hvaða kostir fylgja því að flytja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja.

Hér voru tínd til nokkuð mörg og góð rök fyrir því að flytja þá stofnun á Suðurnes. Ég ætla í sjálfu sér ekki að bæta miklu við það en eins og fram kom er ástand atvinnumála á Suðurnesjum með þeim hætti í dag að það er ekki undarlegt að við þingmenn svæðisins veltum fyrir okkur hvernig hægt er að bregðast við. Við höfum öll heyrt fréttir af samdrætti í starfsemi varnarliðsins. Við sem þarna búum finnum á eigin skinni að það er verulegur ótti hjá íbúum um framtíð þeirra starfa sem þar eru. Nú vill svo til að á flugvellinum er mikið af mannvirkjum sem gætu einmitt hentað flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar. Ég er nokkuð viss um að vart geti reynst erfitt eða mikið verk að komast að samkomulagi um að fá að nýta þar mannvirki sem henta.

Það hefur ekki alltaf farið fram mikil eða ítarleg skoðun á því þegar stofnanir hins opinbera eru fluttar út á land. Stundum virðist manni ekki þurfa nema einfalda ákvörðun um að flytja tiltekna stofnun frá Reykjavík. Það sem flutningsmenn þessarar þáltill. biðja um er ekki að flytja Landhelgisgæsluna einn, tveir og þrír til Suðurnesja, þó að við séum sannfærðir um að þar eigi hún heima. Við viljum eingöngu að fram fari skoðun, raunveruleg athugun án fyrirframgefinnar niðurstöðu og án fordóma, á þeim kostum sem fylgja því að flytja stofnunina til Suðurnesja.

Við höfum séð að flutningur stofnana út á land hefur í mörgum tilfellum tekist ágætlega, flutning Landmælinga ríkisins upp á Akranes, flutning Byggðastofnunar til Sauðárkróks. Auðvitað hafa menn rætt kosti og galla þess að flytja þessar stofnanir á viðkomandi staði en ég held að þegar upp er staðið viðurkenni flestir að það hafi ekki gengið að þeim stofnunum dauðum, eins og margir spáðu þegar byrjað var að tala um að flytja þær. Ég held að hið sama gildi um flutning Landhelgisgæslunnar.

Það er ekki bara að Landhelgisgæslan gæti komist með starfsemi sína í mikil mannvirki á Keflavíkurflugvelli heldur eru á Suðurnesjum mikil hafnarmannvirki og í mörgum tilvikum frekar illa nýtt hafnarmannvirki. Nefna mætti Helguvík en þar er reyndar mikil starfsemi. Keflavíkurhöfn, þar sjá menn fyrir sér að Landhelgisgæslan gæti fengið mjög góða aðstöðu og starfsstöð vegna þess að sú höfn er ekki svo mikið nýtt í dag. Við höfum höfnina í Njarðvík og svo mætti áfram telja.

Ég er sannfærður um það, virðulegi forseti, að ef menn skoða þetta mál fordómalaust, án þess að vera fastir í miðbæ Reykjavíkur, muni þeir komast að því að Suðurnes er staður sem hentar Landhelgisgæslunni mjög vel. Jafnframt mundu menn sjá að tímapunkturinn til að flytja Landhelgisgæsluna er núna. Ég vona því að hv. allshn. taki ekki langan tíma í málið, það verði keyrt tiltölulega hratt í gegn og þessi skoðun fari fram. 15. febrúar 2004 er liðinn en ég vona að ef sett verður á þetta ný dagsetning í nefndinni og málið klárað þá verði það ekki mikið síðar 15. apríl 2004.