2004-02-24 14:30:38# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hæstv. utanrrh. að auðvitað ber okkur að freista þess að hafa sem best samkomulag við frændur okkar Norðmenn. Hins vegar er ekki hægt að ganga að öllum kröfum þeirra varðandi síldina ár eftir ár.

Ég get ekki annað en verið ósammála hæstv. utanrrh. þegar hann segir að hann telji að skiptingin úr norsk-íslenska síldarstofninum sé bærilega ásættanleg. Ég er algjörlega ósammála hæstv. utanrrh. Ég tel að á sínum tíma hafi Íslendingar gengið allt of langt varðandi skiptingu þess stofns. Ég verð líka að segja að ég veit ekki hvert hæstv. utanrrh. er að fara og hvað hann er að boða þegar hann segir að nokkur þúsund tonn af síld eigi ekki að setja frið þessara þjóða í uppnám.

Ég get ekki annað, vegna forsögu þessa máls, en rifjað upp fyrir þingheimi að það var með engu móti hægt að fallast á það sem Norðmenn settu stöðugt fram í samningum við Íslendinga, að það hefði verið ofveiði Íslendinga á miðunum úti fyrir Austfjörðum, á hinu svokallaða Rauða torgi, sem hafi eytt síldinni.

Það liggur fyrir í úttekt norskra fræðimanna sem voru að vísu birtar löngu eftir að þeim veiðum lauk, fremstu vísindamenn Norðmanna komust að þeirri niðurstöðu, að það hafi fyrst og fremst verið veiðar Norðmanna á ungsíld í norskri landhelgi úr þessum sama stofni sem hefðu leitt til hruns stofnsins.

Mér finnst ekki hægt að koma hingað og boða --- eins og mér sýnist hæstv. utanrrh. gera --- að við ætlum enn að gefa eftir gagnvart Norðmönnum hvað varðar skiptingu úr þessum stofni.