2004-02-24 15:15:43# 130. lþ. 70.2 fundur 612. mál: #A staðfesting samninga um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Grænlands, Íslands og Jan Mayen# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það eina sem ég var sammála í ræðu hæstv. utanrrh. er að það þjóni engum tilgangi fyrir mig og hann að reyna að semja okkar á milli í ræðustól. Að öðru leyti er ég ósammála flestu því sem hæstv. ráðherra sagði, nema hugsanlega því að ekkert hafi gerst sem réttlæti að gerð verði einhver breyting á þessum samningi. Mér finnst ekki koma til greina að við látum af hendi 3.000--5.000 tonn, því að hæstv. utanrrh. var að semja um það hér í ræðustólnum.

Það er ómögulegt annað en að skilja ræðu hæstv. ráðherra þannig að annaðhvort sé hann búinn að semja um þetta eða að slíkir samningar standi yfir þessa stundina. Annar kostur er að hann sé að senda miða til Norðmanna yfir þetta ræðupúlt þar sem segi í reynd: Ókei strákar, ég skal semja um 3.000--5.000 tonn.

Mér finnst það ekki koma til greina. Það eru engin rök sem réttlæta það. Við hæstv. utanrrh. þekkjum Norðmenn. Þeir koma nú og vilja meiri háttar breytingar. Ætlum við að svara með því að bjóða minni háttar breytingar? Hver hefur sigur af því? Þeir. Hvað þá þegar þeir gera það aftur? Eftir nokkur ár verða minni háttar breytingar hugsanlega samanlagt orðnar að því sem í dag mætti kalla meiri háttar breytingar. Ég vil biðja hæstv. utanrrh., ef hann telur rangt að reyna að ná einhverjum samningum við mig í ræðustól, um að nota alls ekki þetta púlt til að semja við Norðmenn.