Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 17:35:19 (4580)

2004-02-24 17:35:19# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst við vera að nálgast ansi mikið í þessu máli. Ég heyri að hv. þm. talar núna um að það orki tvímælis að farið sé í umhverfismat nema við breytum lögunum eins og bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir. Ég er sammála því. Það orkar tvímælis. Það orkar svo tvímælis að ég tel alveg óhjákvæmilegt að við breytum lögunum. Það er það mikil réttaróvissa við að svokallað lögformlegt umhverfismat geti farið fram nema þetta bráðabirgðaákvæði nái fram að ganga.

Sá er grunnurinn að öllu málinu, að við skoðum umhverfisáhrifin af þeim framkvæmdum sem við teljum að menn geti náð sátt um á svæðinu. Það má heldur ekki gleyma Umhverfisstofnun sem þarf að gefa leyfi líka. Síðan vill hv. þm. staldra við þar, hann vill leyfa umhverfismatið en síðan fá málið inn aftur ef menn ná sátt. Ég hefði talið eðlilegra að menn gætu klárað málið í sátt og samlyndi af því að verið er að lögbinda neitunarvald landeigendafélagsins þannig að það er ekki hægt að fara í þetta mál nema í sátt við það.

Ef menn telja þetta vera þannig vaxið að eðlilegra sé að taka bara umhverfismatið og koma svo með eitthvert þrátt-fyrir-ákvæði, sem sé að fara þá ekki alla leið og gefa mönnum kost á því að klára málið í sátt og samlyndi, er það eitthvað sem umhvn. getur skoðað. Ég taldi eðlilegt að menn gætu klárað þetta (Gripið fram í.) og ef menn næðu saman í sátt og samlyndi stæðu lögin ekki í vegi fyrir því og þetta þyrfti ekki að koma inn aftur. Þannig var þetta hugsað frá okkur séð.