Meðlagsgreiðslur

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:45:01 (4599)

2004-02-24 18:45:01# 130. lþ. 70.7 fundur 311. mál: #A meðlagsgreiðslur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:45]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um framkvæmd meðlagsgreiðslna umfram lögboðið lágmarksmeðlag og skattalega meðferð þeirra, sem ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur.

Markmið frv. er í reynd tvíþætt, þ.e. að afnema skattlagningu að fullu á meðlagsgreiðslum, en það hefur verið gert núna í áföngum. Ég man þegar ég flutti þetta frv. fyrst að þá var komið til móts við þau sjónarmið sem hér eru sett fram sem rök fyrir þessu máli og afnumin skattlagning á tvöföldum meðlagsgreiðslum. En þetta frv. mitt, eins og reyndar það fyrra þegar það skref var stigið að afnema skatt á tvöföldum meðlagsgreiðslum, gengur út á það að fara alla leið og afnema skattlagninguna á öllum meðlagsgreiðslum.

Annað markmið frv. er að fela Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtu á öllum meðlagsgreiðslum í stað þess að innheimta einungis lágmarksmeðlag eins og gert er samkvæmt gildandi lögum, sem og innheimtu á menntunarframlögum og sérstökum framlögum sem foreldri fær úrskurð um.

Ég vil vitna til þess, herra forseti, að skv. 3. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga er það hlutverk stofnunarinnar að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlag sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra samkvæmt almannatryggingalögum. Heimild er fyrir því í 3. mgr. 3. gr. laganna að stofnunin taki að sér innheimtu á aukameðlögum. Þessa heimild hefur stofnunin aldrei nýtt, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið eftir því leitað. Sé samið um hærra meðlag en lágmarksmeðlag eða sýslumaður úrskurðar slíkt þarf foreldrið sjálft að innheimta það sem er umfram lágmarksmeðlag eftir öðrum leiðum. Í frumvarpinu er þess í stað lagt til að foreldri geti sótt allar greiðslur sem það á rétt á skv. IV. og IX. kafla barnalaga til Tryggingastofnunar en Innheimtustofnun verði falið að innheimta þær hjá meðlagsskyldu foreldri.

Algengast er að meðlagsgreiðendur, sem í flestum tilvikum eru feður, séu aðeins krafðir um lágmarksmeðlag, þótt heimild sé fyrir aukameðlagi miðað við að mánaðartekjur greiðenda fari yfir 200 þús. kr. Þessi upphæð gæti eitthvað hafa breyst frá því að þessi greinargerð var sett saman. Ástæða þess að meðlag umfram lágmarksmeðlag er þó ekki algengara en raun ber vitni er einkum sú að viðtakendur aukameðlags, oftast mæður, verða að sjá um innheimtu þess.

Komið hefur fram að sérfræðingar telja þessa tilhögun eina helstu ástæðu þess að margir einstæðir foreldrar sem fara með forræði barna treysta sér ekki til þess að krefjast aukameðlags þótt meðlagsgreiðandi hafi háar tekjur. Meðlag með einu barni er um 15 þús. kr. á mánuði. Það segir sig sjálft að það er ekki stór hluti af framfærslukostnaði hvers barns og því í litlu samræmi við raunveruleikann eða þarfir barnsins.

Út af fyrir sig þarf ekki, herra forseti, að rökstyðja þetta annað meginmarkmið frv. frekar en ég hef gert. Það vita allir að staða margra einstæðra foreldra er afar bágborin og hér er raunverulega verið að leggja til þá leið að auðvelda einstæðu foreldri að innheimta aukameðlag eða meðlag umfram lágmarksmeðlag þegar þær aðstæður og skilyrði eru fyrir hendi og að Innheimtustofnun verði falið það en að einstætt foreldri sé ekki sett í þá stöðu að þurfa sjálft að ganga á eftir viðbótarmeðlagi eða aukameðlagi til meðlagsskylds aðila. Hér er einungis um framkvæmdaratriði að ræða og mun örugglega ekki fela í sér neinn viðbótarkostnað að ráði fyrir Innheimtustofnun sveitarfélaga og þess vegna er það furðulegt, herra forseti, að þetta mál skuli ekki hafa fengið meiri hljómgrunn í þinginu eða athygli í þeirri nefnd sem fer með þetta mál en raun ber vitni.

Hitt meginatriði frv. er að leggja til breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Fram til ársins 2000 var litið svo á að meðlag umfram barnalífeyri almannatryggingakerfisins væri skattskylt, en þá var ákvæði 3. málsl. 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt breytt þannig að tvöfalt meðlag var gert skattfrjálst, en framlag umfram það skattlagt. Efh.- og viðskn. fjallaði um það mál og var vitnað til þess í nál. að tekið hefði verið tillit að hluta til til þessa frv. sem þá lá fyrir efh.- og viðskn. Í hugum flestra er meðlag foreldris með barni ekki tekjur viðtakanda heldur fremur ráðstöfun tekna meðlagsgreiðanda í þágu barnsins. Má í því sambandi benda á að í 2. mgr. 63. gr. barnalaga kemur fram að þessi framfærslueyrir tilheyri barni. Illskiljanlegt er því að takmarka undanþágu frá tekjuskatti við tvöfalt meðlag, en gera meðlagsgreiðslur umfram það skattskyldar. Reyndar má segja að í slíkum tilvikum sé um tvísköttun að ræða, þ.e. fyrst er greiddur skattur af tekjum meðlagsgreiðanda og síðan af meðlaginu þegar það er komið í hendur þess sem hefur forræði yfir barninu. Það verður því að teljast í hæsta máta ósanngjarnt að meðlag umfram tvöfaldan barnalífeyri almannatryggingakerfisins myndi skattskyldar tekjur.

Við mat á því hvort líta eigi á meðlagsgreiðslur sem eðlilegt andlag skattlagningar verður að líta á eðli greiðslunnar og sifjaréttarleg tengsl foreldris og barns. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að meðlag er eign barns og er byggt á lögbundinni skyldu foreldris til framfærslu barns síns. Breytingin sem hér er lögð til á lögum um tekjuskatt og eignarskatt felur í sér að barnsmeðlag á grundvelli meðlagsúrskurðar sýslumanns eða samkomulags um framfærslu barns sem staðfest hefur verið af sýslumanni teljist ekki til tekna.

Herra forseti. Það er mín skoðun að hér sé um sanngirnismál að ræða. Ég tel að það sé heldur ekki í því tilviki þar sem verið er að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt um mikil útgjöld fyrir ríkissjóð að ræða heldur óveruleg útgjöld, en engu að síður mundi fullkomið skattfrelsi meðlagsgreiðslna hafa mikið að segja fyrir einstæða foreldra. Af því að menn vilja síður gera undanþágur á skattalögum vil ég nefna, eins og fram kom reyndar í mínu máli, að tvöfalt framlag er núna skattfrjálst þannig að það ætti ekki að breyta miklu varðandi framkvæmdina þó að allar meðlagsgreiðslur í þeim tilvikum þar sem um meira en tvöfalt meðlag er að ræða, sem er kannski ekki í mörgum tilvikum, verði skattfrjálst.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, herra forseti. Hér er um breytingu á þrennum lögum að ræða, lögum um tekjuskatt og eignarskatt, lögum um almannatryggingar og lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, þannig að út af fyrir sig gæti málið farið til þriggja nefnda í þinginu. En ef ég man rétt, og ég óska þá eftir að það verði skoðað sérstaklega, þá hefur þessu máli áður verið vísað til efh.- og viðskn. og legg ég til að það fari þá leið, hafi það gert það áður, og þá er e.t.v. rétt að leita umsagnar hjá öðrum nefndum um aðra efnisþætti frv.