Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:11:52 (4698)

2004-03-01 16:11:52# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Tilgangur þessara laga er að gera hlutavinnustörf betri og eftirsóknarverðari en þau eru nú með því að treysta réttarstöðu fólks sem gegnir slíkum störfum. Það er markmiðið með þessum lögum.

Ég ætla að trúa hæstv. forseta Alþingis fyrir því að ég hef stundum heyrt hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde tala af meiri sannfæringu fyrir máli. Það sem ég vil fá að heyra --- það eru hann og samningamenn hans sem standa í vegi fyrir því að tilskipunin verði framkvæmd á þann hátt sem verkalýðshreyfingin telur að beri að gera --- er hvers vegna slík ofuráhersla, slíkt ofurkapp sé lagt á að undanskilja starfsmenn ríkis og sveitarfélaga. Við verðum að fá málefnalega skýringu á þessu. Hvað er í húfi? Með tilliti til þess sem hér um ræðir í þessu lagafrumvarpi, að eftir því sem kostur er eigi að leitast við að taka tillit til þessa fólks í starfi og að auðvelda því aðgang að símenntun og endurmenntun, hvað er það sem stendur í vegi fyrir því að þetta fólk verði látið njóta þessara réttinda? Mér finnst við ekki hafa fengið svör við þessu.

Síðan, hæstv. forseti, vil ég ítreka að sú undanþága sem hér er verið að framfylgja með lagaboði er miklu víðtækari en gerist annars staðar vegna þess að staðreyndin er sú að mörg hundruð einstaklingar búa árum saman við þau ráðningarkjör sem hér um ræðir.