Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:18:10 (4771)

2004-03-02 16:18:10# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason talaði um fáránleika umræðunnar um evruna. Það er eins og hv. þm. lifi ekki í þessu þjóðfélagi, eins og hv. þm. hafi ekki fylgst með því að íslenska krónan er komin að fótum fram, að íslensk fyrirtæki, meira að segja íslensk heimili taka meira og minna alla daga lán í erlendum gjaldmiðlum, að íslenski fjármálamarkaðurinn er meira og minna að verða rekinn á erlendum fjármunum og að í íslensku krónunni er fólgin kannski einhver mesta hætta sem nú er á ferðinni fyrir íslenskt efnahagslíf.

Hv. þm. hefur ásamt félögum sínum gagnrýnt verulega hvað gæti gerst hér þegar krónan hækkar í verði og ruðningsáhrifin koma fram vegna þeirra framkvæmda sem eru í gangi fyrir austan. Við höfum séð það á undanförnum árum hvernig slíkir hlutir hafa farið með iðnaðinn í landinu og samkeppnisfyrirtækin sem eru að keppa við innflutning. Allt hefur þetta verið að versna meira og meira á undanförnum árum og samt talar hv. þm. um fáránleika þess að velta því fyrir sér hvort hægt sé að komast út úr þessu hættuástandi.

Það veit enginn hvað er fram undan í íslensku efnahagslífi eins og sakir standa vegna þess að enginn veit hvað verður um krónuna. Það eitt er ljóst að hún er að úreldast og er komin að fótum fram. Sú tilraun sem við höfum verið að gera á undanförnum árum, að opna það örhagkerfi sem hér er fyrir fjármagnsstreymi út og inn í hagkerfum í kringum okkur sem eru gríðarlega stór á okkar mælikvarða, hefur ekki enn þá tekið enda.