Stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 17:10:39 (4782)

2004-03-02 17:10:39# 130. lþ. 74.10 fundur 336. mál: #A stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[17:10]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé nú miklu meira en það. Það er út af fyrir sig gagnlegt og gott og getur fullkomlega réttlætt það að lagt sé í nokkurn kostnað og nokkra fyrirhöfn að hlutir hafi sagnfræðilegt gildi og skiptir máli t.d. þegar menn meta þróun þó að einhverju leyti sé eftir á og í ljósi þess hvernig hlutirnir hafi gengið fyrir sig. En ég hugsa þetta ekki síður, og tillagan er ekki síður hugsuð gagnvart núinu og framtíðinni, að við höfum á hverjum tíma með reglubundnu millibili í höndum greinargóðar og nýjar upplýsingar, staðreyndir um hluti í viðskiptalífinu sem löggjafinn, Alþingi, hlýtur að vilja vera upplýst um. Það er Alþingi sem setur lögin, setur lögin um samkeppnisreglurnar og leikreglurnar. Það er Alþingi sem setur lögin um eftirlitsstofnanirnar. Og það er Alþingi sem hefur eftirlit og aðhaldshlutverki að gegna hvað það varðar að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig. Allt þetta skiptir máli þegar Alþingi er að beita sér í þessum efnum. Svo má kannski segja að þetta hafi einnig í för með sér nokkurt aðhaldsgildi. Þetta eru ákveðin skilaboð um það að Alþingi vill vera vel með á nótunum hvað er að gerast í viðskiptalífinu að þessu leyti. Eru forsendur heilbrigðrar samkeppni uppfylltar? Og ef menn telja að svo sé er ekkert að óttast. Þá staðfesta skýrslurnar það og þá verða allir glaðir. En ef þarna eru hættumerki á ferð er líka rétt að Alþingi viti af því og sé meðvitað um það.

Samkeppnisyfirvöld hafa auðvitað sterkari stöðu til að gera slíka hluti en fjölmiðlar, með fullri virðingu fyrir þeim. Samkeppnisyfirvöld geta kallað eftir þessum upplýsingum og eftir atvikum sótt þær og þurfa ekki neitt nema sína eigin starfsemi til að réttlæta það og rökstyðja. Þannig að með fullri virðingu fyrir aðhaldshlutverki fjölmiðla gegnir nokkuð öðru máli um samkeppnisyfirvöld og stofnanir.