Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:34:07 (4826)

2004-03-03 14:34:07# 130. lþ. 76.91 fundur 380#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:34]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Ég hélt að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefði komið hér upp til að ræða form og óska skýringa á því af hverju fyrirspurn sem lögð var fram 28. október væri ekki enn komin hér á dagskrá þingsins en ekki til að skattyrðast við hæstv. menntmrh. um efni máls.

Þingsköp segja til um það með mjög skýrum hætti hvað langur tími má líða þar til fyrirspurnum er svarað. Ef hæstv. ráðherrar treysta sér ekki, einhverra hluta vegna, til að svara þeim spurningum sem fyrir liggja ber þeim með einhverjum hætti að koma þeim í farveg annan en þann að hunsa þær. Þeim ber með einhverju móti að hafa samband við þann sem lagt hefur fram fyrirspurnina og óska eftir frestun á því að taka hana fyrir eða þá hreint og klárt að reyna að koma henni frá, vísa henni frá, vegna þess að hún sé þá ekki þingtæk vegna þess að búið sé að svara málinu á einhverjum öðrum vettvangi.

Ég vonast til þess að hæstv. menntmrh. svari í raun því sem um var spurt í upphafi þessa þingfundar: Hvernig stendur á því að fyrirspurnin er ekki komin hér á dagskrá? Hvernig stendur á því að fyrirspurn sem er orðin 100 daga gömul liggur ekki hér á borðum okkar til umræðu þegar aðrar fyrirspurnir sem koma inn löngu seinna til hæstv. ráðherra eru komnar þar fram fyrir?