Tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:46:18 (4833)

2004-03-03 14:46:18# 130. lþ. 76.1 fundur 356. mál: #A tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur gert grein fyrir fyrirspurn sinni en eins og fram kom í ræðu hv. þm. skipaði samgrh. nefnd á grundvelli þáltill. frá árinu 1997 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samráði við hagsmunaaðila, að móta skýrar reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu sem m.a. innihaldi heimildir til tafarlausrar stöðvunar ef vart verður mengunar. Reglurnar nái einnig til olíuskipa í siglingum milli hafna hér á landi.

Jafnframt verði mótaðar reglur um hvaða ráðuneyti og stjórnvöld fari með forræði um allar aðgerðir sem grípa þarf til ef mengunarslys verða á sjó eða við strendur landsins.``

Nefndin skilaði áliti til samgrh. í lok ársins 2000. Í áliti nefndarinnar kom fram að nefndarmenn voru sammála um nauðsyn þess að auka verndun umhverfisins og öryggi skipa. Huga þyrfti að takmörkun umferðar skipa innan svæðis frá Dyrhólaey suður fyrir Vestmannaeyjar að Fuglaskerjum og þaðan að Garðskaga.

Í áliti nefndarinnar kemur einnig fram að rannsaka þurfi öldufar og strauma á áhrif þessara þátta á siglingaöryggi mismunandi tegunda skipa á siglingaleiðum við suðurströndina. Siglingastofnun hefur í samræmi við álit nefndarinnar stundað rannsóknir á þessum þáttum á umræddum siglingaleiðum og er áætlað að niðurstöður þessara rannsókna liggi fyrir í lok ársins 2004 en nefndin lagði mjög ríka áherslu á að allar aðgerðir í framhaldinu yrðu að byggjast á slíkum rannsóknum sem nú sér fyrir endann á.

Auk þess hefur starfshópur samgrn. farið yfir álit nefndarinnar. Þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir munu í framhaldi af því verða teknar frekari ákvarðanir um afmarkanir siglingaleiða fyrir skip með hættulegan varning með því að setja reglur þar um.

Alþjóðasiglingamálastofnunin hefur sett fram reglur um með hvaða hætti takmarka megi umferð skipa um hafsvæði sem t.d. hafa sérstakt líffræðilegt gildi og þar sem olíumengun gæti haft víðtækar afleiðingar. Verði það niðurstaðan að takmarka umferð skipa á ofangreindu svæði þarf að taka málið upp á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar og fá staðfestingu hennar á því svo mögulegar takmarkanir á siglingaleiðum verði settar inn í sjókort hvar sem þau eru gerð í heiminum. Hugmyndir um aukna verndun svæðisins hafa verið kynntar óformlega á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar nú þegar og verður það metið þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir hvort sú leið verði farin.

Með lögunum um vaktstöð siglinga sem samþykkt voru á Alþingi 20. mars sl. eru lagðar styrkari stoðir undir vöktun skipa með hættulegan farm. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda skiptir mjög miklu máli að vel sé að því staðið. Lög um vaktstöð siglinga heyra undir samgrh. en með samþykkt ríkisstjórnarinnar sl. haust var ákveðið að flytja framkvæmd laganna til dómsmrn. Nú er unnið að því að setja vaktstöðina upp í stjórnstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík. Verkefni vaktstöðvarinnar sem fram að þessu hefur verið vistuð hjá skipaþjónustu Landssímans og Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Gufunesi verða flutt í Skógarhlíðina á þessu ári auk þess sem unnið verður að því að skipuleggja starfsemi stöðvarinnar enn frekar.

Um þessar mundir vinnur Siglingastofnun að innleiðingu sjálfvirks auðkenniskerfis skipa, svokallaðs AIS-kerfis, á Íslandi og verður fyrsta grunnstöðin sett upp í Bláfjöllum en hún hefur verið í tilraunarekstri hjá Siglingastofnun í Kópavogi frá því á síðasta ári. Sú stöð nær yfir hafsvæðið við suðurströnd landsins. Fátt er því til fyrirstöðu að vaktstöð siglinga muni fljótlega geta fylgst með siglingum nær allra skipa á viðkvæmum svæðum við suðurströndina með AIS- og STK-kerfunum. Þegar AIS-kerfið verður að fullu komið í gagnið og þegar tilkynningar sem kveðið er á um í lögum um vaktstöð siglinga verða að fullu komnar í gagnið má segja að tilkynningarskylda skipa á þessu hafsvæði verði fullnægjandi. Samþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar um AIS-kerfið ná til allra skipa sem sigla um íslenska efnahagslögsögu, samanber skilgreiningar þar um.