Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 10:43:46 (4880)

2004-03-04 10:43:46# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[10:43]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég gerði mér far um að hlýða á hæstv. dómsmrh. og reyna að skilja hvaða sjónarmið búa að baki því að stofna íslenskan her. Í hans máli kom ekkert fram sem réttlætti að Alþingi Íslendinga fengi tilkynningu um það, í gegnum blaðamenn og fjölmiðla, að ákveðið hefði verið að setja 50 manns undir vopn á Íslandi.

Svo virðist sem hæstv. ráðherra skilji lögreglulögin þannig að hann hafi opið umboð frá Alþingi til að stofna íslenskan her og að í gildandi lögum felist heimildir fyrir hæstv. ráðherra að búa til slíkan her. Ég hafna þessari skoðun alfarið. Vissulega vitum við að hæstv. ráðherra hefur lengi haft mikinn áhuga á íslenskum her. En að því skuli hrint í framkvæmd þannig að hæstv. ráðherra og hans helsti aðstoðarmaður, ríkislögreglustjóri, skuli koma saman og taka þessa ákvörðun er nánast með hreinum ólíkindum. Það er með ólíkindum að Alþingi Íslending skuli ekki fyrst taka pólitíska umræðu um þá kúvendingu í öryggismálum sem það er að stofna íslenskan her. Þetta er með hreinum ólíkindum og ég þori að fullyrða að hvergi nokkurs staðar í lýðræðisríki mundu menn leyfa sér slíkt.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan að hann hefði furðað sig á að hann hefði ekki verið spurður sérstaklega út í ræðu sína við slit á Lögregluskólanum í desember þar sem hann ýjaði að þessu. Hvern hefði órað fyrir að í þessum orðum fælust hugmyndir um að stofna íslenskan her? Ég held að enginn hafi haft hugmyndaflug til að láta sér þetta til hugar koma.

Þetta er ekki síður athyglisvert vegna þess að sum stórveldi í veröldinni hafa ekki vopnað lögreglumenn sína, t.d. Bretar. En hæstv. ráðherra telur nauðsynlegt að stofna íslenskan her. Ég mótmæli þessu alfarið, virðulegi forseti.