Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 10:58:40 (4887)

2004-03-04 10:58:40# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[10:58]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Almenn löggæsla er hluti daglegs lífs í hverju samfélagi. Það er ekki þannig að allir bíði færis og brjóti lögin ef lögreglumaður sést ekki, heldur viljum við að lögreglumaður sé til taks og hafi umboð til að greiða úr, fyrirbyggja vandræði og taka á tilvikum sem upp kunna að koma.

Alveg eins er með læknisþjónustuna. Það er ekki markmið í sjálfu sér að sem flestir séu sjúkir, en að læknir sé til staðar ef á þarf að halda. Vitundin um nánd læknis og vitundin um nánd lögreglu veitir okkur öryggi. Starf þessara stétta er ekki síður fólgið í forvarnastarfi og samfélagslegri þátttöku en beinum verklegum aðgerðum. Þessi einföldu grunnatriði er mikilvægt að hafa í huga við uppbyggingu löggæslu í landinu og forgangsröðun í áherslum hvað hana varðar.

Hér skal ekki gert lítið úr aukinni hættu á alvarlegum vopnuðum glæpum hér á landi, en þessi samfélagslega sýn sem ég hef lýst má ekki glatast í aðdáun á miðstýrðu valdi í skjóli vopna sem mörgum finnst einkenna um of hugarheim hæstv. dómsmrh.

Ríkislögreglustjóraembættið var upphaflega stofnað sem stjórnsýslulegur samræmingaraðili en var ekki ætlað að starfrækja lögreglusveitir. Þvert á þessa stefnu hefur ríkislögreglustjóraembættið þanist út á kostnað almennrar löggæslu í landinu. Grenndarlöggæslan, sem við í orði kveðnu leggjum áherslu á, hefur verið að skreppa saman og ég óttast að hún muni halda áfram að skreppa saman ef stefna dómsmrh. nær fram að ganga.

Flest löggæsluembætti í landinu búa við mikið fjársvelti og stöðugt skert starfsskilyrði. Verið er að skera niður almenna löggæslu um allt land. Þessar áherslur hæstv. dómsmrh. eru að mínu viti rangar. Íslensk þjóð er andvíg löggæslu í skjóli vopna.