Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 11:00:44 (4888)

2004-03-04 11:00:44# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[11:00]

Bjarni Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 10. febrúar sl. um að efla sérsveit lögreglunnar var skynsamleg og nauðsynleg. Það er með ólíkindum að verða vitni að því í þingsal að hver þingmaðurinn á fætur öðrum komi hér upp af algerri málefnafátækt og vaði elginn. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með þessu. Þvílíkar yfirlýsingar sem koma frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar í tilefni af þessu máli og það blasir við að þeir hafa ekki haft fyrir því að setja sig efnislega inn í það.

Hér koma menn og spyrja: Á að vígvæða lögregluna á kostnað almennrar löggæslu og forvarna? Ef menn hefðu kynnt sér þetta mál efnislega sæju þeir að það er verið að efla almenna löggæslu í landinu, sérstaklega í Reykjavík. Stór hluti af þeim fjárveitingum sem þessar breytingar munu kalla á er til þess að efla lögregluna í Reykjavík. Þetta er mjög einfalt og það er auðvelt að sjá það ef menn setja sig inn í málið.

Síðan koma hér þingmenn annars vegar til að þakka fyrir það samráð sem haft var við undirbúning þessa máls og hins vegar kemur hv. þm. Sigurjón Þórðarson og spyr: Var haft eitthvert samráð? Hann hefur ekkert kynnt sér málið en er hins vegar tilbúinn til að koma hingað upp með miklar yfirlýsingar um að þetta sé vanhugsað og allt saman til að uppfylla meinta drauma hæstv. dómsmrh., alveg með ólíkindum.

Við landsmenn þurfum að takast á við ný verkefni á sviði lögreglumála af ábyrgð og festu. Þróun í tegundum afbrota innan lands og auknar kröfur til okkar í alþjóðasamfélaginu gera kröfu til þess að við högum skipulagi lögreglumála þannig að við stöndum undir þeim væntingum sem þessir aðilar gera til okkar. Þær ákvarðanir sem núna hafa verið teknar tryggja það að við getum staðið undir þessum væntingum.