Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 11:56:00 (4898)

2004-03-04 11:56:00# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[11:56]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það mál sem við erum nú að ræða er um stjórnarskipunarlög og mig langar að blanda mér í þá umræðu. Í fyrsta lagi er afstaða mín til fyrri liðar þessa frv. um bráðabirgðaákvæði, um að hafa það ákvæði í stjórnarskránni að ríkisstjórn geti sett bráðabirgðalög, einfaldlega þannig að ég tel að slíkt ákvæði eigi ekki lengur við og það beri að fella niður.

Það fer ekkert á milli mála að fyrr á tíð gátu verið full rök fyrir því að slíkt ákvæði væri inni, þegar samgöngur voru með öðrum hætti eða enn frekar þegar þingið sat kannski ekki nema annað hvert ár. Ákvæðið er þess vegna barn síns tíma og ekki er lengur brýn nauðsyn á að hafa það inni í löggjöfinni. Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, að það eigi að afnema heimildina til bráðabirgðalagasetningar. Ef menn geta alls ekki fallist á að ganga þá leið alla að afnema ákvæðið er a.m.k. nauðsynlegt að afmarka mjög skýrt í hvaða tilvikum megi beita bráðabirgðalagaákvæðinu.

Ég sé í raun og veru engin rök fyrir því að hafa þetta inni í löggjöfinni í dag. Ég sé engin þau tilvik þar sem ekki má kalla Alþingi saman með mjög stuttum fyrirvara ef eitthvað ber svo brátt að í þjóðfélaginu að það þurfi að grípa til nýrrar lagasetningar vegna þeirra utanaðkomandi aðstæðna. Það tilvik sem hér var á sl. sumri um setningu bráðabirgðalaga varðandi lax- og silungsveiði tel ég reyndar að hafi verið út úr öllu korti og ekki náð nokkurri átt að beita bráðabirgðalagaákvæðinu í því tilviki. Það sýndi í raun og veru að ákvæðið á ekki lengur heima í stjórnarskránni vegna þess að það er einfaldlega hætta á að það verði misnotað. Þess vegna tek ég heils hugar undir efni frv. hjá hv. flm. Kristni H. Gunnarssyni um að bráðabirgðalagaákvæði sé óþarft í nútímaþjóðfélagi og það sé ekkert sem hindri það, svo séð verði, að eigi megi kalla Alþingi saman með mjög stuttum fyrirvara ef svo brýn mál eru uppi að setja þurfi lög. Ég tel að ákvæðið varðandi lax- og silungsveiðilögin hafi ekki verið svo brýnt að grípa bæri til þess að setja bráðabirgðalög. Það var jafnvel ekki svo brýnt að þurft hefði að kalla Alþingi fyrr saman. Það var enn þá tími til að setja þessi lög strax í upphafi þings þannig að það mál allt og sá málatilbúnaður veitti ekki þeirri skoðun aukna trú að þetta ákvæði þyrfti að vera í lögunum.

[12:00]

Ég hef reyndar lengi verið andvígur því að það væri hægt að beita bráðabirgðalagaákvæðum með þeim hætti sem gert hefur verið. Eins og ég sagði áður tel ég bráðabirgðalögin vera barn síns tíma og að það beri að leggja þessa heimild niður. Ég vil a.m.k. fá sterk rök fyrir því í hvaða tilvikum slík heimild þyrfti að vera inni í stjórnarskipunarlögunum og þá væri líka eins gott að það væri skýrt út í textanum í hvaða tilvikum það er svo brýnt. Ég vil þá flokka þau undir einhver sérstök neyðartilvik sem ég geri mér svo sem ekki grein fyrir hver ættu að vera miðað við nútímasamgöngumáta hér á landi. Ég er tilbúinn að hlusta á rök annarra í því en fæ ekki séð að slík tilvik komi upp. Sem betur fer eru samgöngur ætíð að batna hér á landi og það er auðveldlega hægt að kalla Alþingi saman til lagasetningar þegar slíks er þörf. Ég tel að það hafi ekki átt við, eins og ég sagði áður, í því tilfelli sem nýjast er í þessum efnum.

Það eru auðvitað mörg tilefni til að skoða stjórnarskipunarlögin. Hér var m.a. minnst á starfstíma Alþingis. Ég hef áður tjáð afstöðu mína opinberlega í því máli og tel að við eigum að skipa starfstíma Alþingis með dálítið öðrum hætti en er í dag. Ég get svo sem nefnt það hér að hugmyndir mínar í þá veru voru einfaldlega að þing kæmi fyrr saman og færi síðar heim að vori og að inni í starfstíma þingsins væru svo tvö til fjögur hlé þar sem þingmönnum væri gefinn kostur á, t.d. í vikutíma, að fara heim í kjördæmi sín, halda fundi um ákveðin málefni og kynna þau mál sem þá eru helst til umræðu í þinginu og sjónarmið sín.

Ég held að slíkt vinnulag yrði betra og vildi að við settum okkur það vinnulag í hv. Alþingi að reyna að afgreiða lög reglulega frekar en að safna upp lagasetningunum annaðhvort fyrir jól eða í lok þings. Ég held að alþingismönnum í hinum stóru og nýju landsbyggðarkjördæmum veiti eigi af þó nokkrum tíma til að hafa aukið samráð við kjósendur sína og það væri eðlilegt að brjóta starf þingsins örlítið upp með þessum hætti en hafa starfstímann lengri á móti. Ég ætla ekki að ræða það nánar en þetta eru meginhugmyndir mínar í því efni.

Einnig eru auðvitað fleiri ákvæði sem þarf að skoða ef við förum almennt í umræðu um stjórnarskrána, eins og rannsóknarnefndir þingsins o.fl., en ég ætla ekki að fara almennt inn í þá umræðu hér.

Varðandi síðara atriðið í þessu frv. hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar sem snýr að því að ráðherrar sitji eigi á þingi tel ég að það sé virði einnar messu að skoða það og menn eigi að fara yfir það hvaða kostir fylgja því og hvernig við tryggjum þá skiptingu valdsins milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, hvort við tryggjum það betur með því fyrirkomulagi, eins og kemur hér m.a. fram í rökstuðningi með frv. hjá hv. þingmanni.

Það er meginreglan að ráðherrarnir koma oftast nær úr stjórnarflokkunum, eru frambjóðendur til þings og hafa verið kjörnir sem þingmenn. Það er líka rétt sem segir í greinargerð með frv. að ráðherrar hafa á undanförnum árum og áratugum verið að taka til sín meiri völd með skipun stjórna og ráða en ákvarðanir þá verið fluttar frá Alþingi að sama skapi. Ég tel að þá tillögu að ráðherrar sitji eigi á þinginu eigi að taka til gaumgæfilegrar skoðunar og ætla ekki að taka beina afstöðu til þess hvort það eigi að stíga það skref nú án frekari skoðunar. Ég tel einboðið, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að bráðabirgðalagaákvæðið verði fellt niður en hefði talið að síðara ákvæðið í frv., sem snýr að þingmennsku ráðherranna, þyrfti kannski nánari skoðunar við en tjái mig opinn fyrir því að skoða það með þeirri hugsun að við aukum þá vald Alþingis en drögum úr valdi framkvæmdarvaldsins.