Íslensk farskip

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 14:38:06 (4922)

2004-03-04 14:38:06# 130. lþ. 77.4 fundur 484. mál: #A íslensk farskip# (skattareglur o.fl.) þál., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar talað er um að það séu fleiri kaupskipaútgerðir en Samskip og Eimskip, er það rétt. Það er eitt skipafélag til viðbótar sem heitir Atlantsskip. Þá er ég að tala um skipaútgerðir sem stunda reglubundnar siglingar til og frá Íslandi. Það er líka til skipafélagið Nes, sem hefur verið í leigusiglingum eingöngu með erlenda sjómenn, og síðan er til skipafélagið Nesskip, sem hefur verið í lýsis- og mjölflutningum og eingöngu með erlendar áhafnir.

Það sem ég er að tala um er þessi breytilega staða íslenskra kaupskipaútgerða versus þeirrar skandinavísku, sem eru í flutningum út um allan heim og í samkeppni vítt og breitt um heiminn. Skipafélögin þrjú, Atlantsskip, Samskip og Eimskip eru í reglubundnum siglingum að og frá Íslandi. Það er ekkert kínverskt skipafélag, það er ekkert japanskt eða pólskt skipafélag eða annað sem er í reglubundnum siglingum að og frá Íslandi með nauðsynjavörur okkar. Samkeppnin er því ekki á þeim grundvelli.

Hins vegar vil ég taka undir það að lokum og segja: Ég tel eðlilegt að gera allt til þess að fjölga íslenskum sjómönnum. Ég tek alveg heils hugar undir þáltill. hvað það varðar og bendi á, eins og ég sagði áðan, að um 200--250 störf gætu verið í húfi sem skiptir auðvitað verulegu máli, eða eins og eitt álver sem nýtur sérstakrar niðurgreiðslu í orkuverði. Ég tel eðlilegt að horft sé á það líka. Er réttlætanlegt og er það hægt og rétt að við greiðum niður rekstrarkostnað íslenskra kaupskipaútgerða til að auka og efla íslenska farmannastétt? Ef það gæti orðið mun ég heils hugar taka undir það.