Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:28:13 (4942)

2004-03-04 16:28:13# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að mér finnst hv. þm. sem flytja þetta frv. hafa sett það ágætlega saman. Þó að ég sé ekki sammála því sem þeir leggja til finnst mér að þeim hafi tekist að setja hugmynd sína skynsamlega fram. Og ég get alveg tekið undir þá aðferð sem þeir nefna til sögunnar í sambandi við að leggja af útvarpsgjaldið, að í staðinn geti komið breyting á persónuafslætti, með öðrum orðum að taka þetta bara með skattinum. Það er ekki annað sem þar er verið að leggja til.

En mér fannst dálítið skrýtið þegar hv. þm. Pétur Blöndal hélt ræðu sína hérna áðan og talaði um menningarítroðslu Ríkisútvarpsins og lýsti því svo hvernig ítroðslan ætti að halda áfram í formi útboða, þar sem útvarpsráð héldi áfram að skilgreina það sem ætti að gera sem yrði síðan boðið út. Mér fannst hann eiginlega gera mistök með því að lýsa því hvernig ítroðslan fór fram með neikvæðum hætti og koma svo með þessa tillögu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að það sé menningarfjársjóður til í Ríkisútvarpinu, hvort allt það efni sem þar er til sé ekki fjársjóður af því tagi að menn geti ekki bara sent hann hvert sem er og hvort ekki þurfi að halda utan um slíkt. Er samfelld starfsemi eins og hefur verið hjá Ríkisútvarpinu þá einskis virði?

Svo langar mig til að segja það í sambandi við samkeppnismálin að það skýtur dálítið skökku við að menn skuli hafa þessi svör uppi sem hv. þm. var með hér áðan þegar fyrir liggur að ríkisstjórnin ætlar að selja Símann sem er núna með 74% af markaðnum. Eins og að drekka vatn ætla menn að selja Símann og búa til samkeppnisumhverfi sem er af því taginu sem hér var lýst ef niðurstaðan yrði sú að Stöð 2 keypti Ríkisútvarpið.