Nemendafjöldi í framhaldsskólum

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 15:32:01 (4964)

2004-03-08 15:32:01# 130. lþ. 78.91 fundur 385#B nemendafjöldi í framhaldsskólum# (aths. um störf þingsins), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:32]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Þær eru kaldar kveðjurnar úr menntmrn. þessa dagana. Fyrst kemur hæstv. ráðherra menntamála fram með gagngera stefnubreytingu í málefnum Háskóla Íslands þar sem hún lýsir því yfir að skólanum beri að takmarka nemendafjölda skólans við gerðan samning við ríkið. Skólinn sé því ekki opinn þeim sem í hann vilja sækja eins og verið hefur frá stofnun skólans. Háskólinn er því ekki lengur opinn þjóðskóli heldur er það háð pólitískum geðþótta ráðherra menntamála og ríkisstjórnar hve margir fá aðgang að þjóðskólanum ár hvert.

Þetta eru tímamót, herra forseti. Fjöldatakmarkanir við háskólann eru staðfestar sem fyrsta meginverkefni nýs hæstv. ráðherra menntamála. Og enn heggur hæstv. ráðherra í sama knérunn. Framhaldsskólunum virðist einnig gert að taka upp fjöldatakmarkanir. Öðruvísi er varla hægt að skilja bréf frá menntmrn. til framhaldsskólanna sem greint er frá í Fréttablaðinu í dag og í Ríkisútvarpinu í gær þar sem skólarnir eru varaðir við að taka inn nemendur umfram umsaminn hámarksfjölda og þeir geti ekki gert ráð fyrir auknum fjárveitingum.

Þetta þýðir væntanlega bara eitt, herra forseti: Framhaldsskólarnir skulu taka upp fjöldatakmarkanir. Því verður ráðherra að taka af allan vafa um hvað átt er við með bréfinu. Er verið að fyrirskipa fjöldatakmarkanir við framhaldsskóla landsins?

Einnig væri fróðlegt að fá svör við því hvort samstarfsflokkur Sjálfstfl., Framsfl., standi á bak við þessa stefnubreytingu. Er þetta hin nýja byggðastefna með öllu fólkinu í fyrirrúminu?