Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:27:33 (4994)

2004-03-08 17:27:33# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra stuðning Samf. við það ágæta mál að auka hér notkun vistvænna ökutækja. Ég árétta bara það sem ég nefndi áðan, að öll þau metnaðarfullu markmið sem hv. þm. talaði um og vitnaði til þáltill. sinnar og fleiri hv. þm. vaka einmitt fyrir hinni fjölskipuðu nefnd sem er að störfum. Hún mun leggja fyrir tillögu, vonandi afskaplega fljótlega, sem tekur til þess hvernig almennt á að fjármagna vegakerfið, til ábendinga um ýmsa þætti í lögum okkar sem eiga þá að taka mið af því hvernig lagaramminn á að geta hvatt okkur til að nota þessi vistvænu ökutæki.

Ef hinn frægi dísil- og bensínskattur leggst af, ef menn hætta almennt að nota bensín og dísil hér, sem ég hygg að muni gerast fyrr en margan grunar, verðum við auðvitað að finna aðrar leiðir í staðinn. Ég held að þar muni áður en svo langt um líður koma möguleikar eins og útflutningur á vetni en nú þegar er starfandi í Þýskalandi félag sem var stofnað fyrir 10 árum og heitir hvorki meira né minna en Der Isländische Wasserstoffvereinlag, er í eigu margra þekktra þýskra fyrirtækja og hefur það markmið eitt að flytja inn vetni til Þýskalands frá Íslandi þegar markaðurinn verður tilbúinn. Stærstu bílaframleiðendur heims keppa núna um það að verða fyrstir inn á þennan markað sem bíður eftir vistvænni ökutækjum og hafa lýst því yfir að á allra næstu árum muni þeir hefja fjöldaframleiðslu. Fyrirtækið Íslensk nýorka er einmitt komið úr löngum heimsleiðangri til bílaframleiðenda í heiminum þar sem er verið að bjóða okkur sem tilraunavettvang á þessu sviði.