Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 18:05:11 (5008)

2004-03-08 18:05:11# 130. lþ. 78.11 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst koma á framfæri leiðréttingu. Ég mismælti mig áðan. Sementskostnaður er talinn vera 2--3% af byggingarkostnaði. Það er mikilvægt að þetta frv. verði að lögum núna áður en sementsvertíðin hefst fyrir alvöru. Eins og málum er háttað í dag er a.m.k. hægt að fullyrða að það er enginn hvati til að flytja sement á hagkvæman hátt. Það er mál út af fyrir sig.

Af því að hv. þm. nefndi sérstaklega kostnað á landsbyggðinni þá sagði ég að búast mætti við að sementsverð hækkaði eitthvað á landsbyggðinni. En þá vil ég líka taka fram að fyrir austan er komið síló, það vill svo til. Það er ekki fyrir tilstilli hv. þm. Jóns Bjarnasonar að það varð. Það er út af því að þar á að fara að reisa álver og virkjun. Það er komið síló fyrir austan þannig að þar er ekki hætta á áhrifum af því að þetta frv. verði að lögum. Það er (Gripið fram í.) ágætt að halda því inni í umræðunni.