Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:10:57 (5034)

2004-03-09 16:10:57# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst nú hv. þm. fara frjálslega yfir söguna. En það er út af fyrir sig kannski ekki aðalatriði málsins. Hv. þm. býr sér til sína eigin mynd af sögunni og afstöðu manna á liðinni tíð til þess að geta síðan lagt út af því á nokkru flugi hvernig menn hafi verið að skipta um skoðun eða færa sig til.

Ég hef aldrei litið svo á að orðið Evrópusinni væri skammaryrði. Ég hef iðulega um langt árabil einmitt mótmælt því að við værum ekki Evrópusinnar og vildum Evrópusamvinnu og teldum að Ísland tilheyrði Evrópu, sem hefðum þá skoðun að það væri hins vegar ekki hagstætt fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið. Ég hef alltaf haldið þessu aðgreindu. Sömuleiðis er það nú síðbúin gleði hjá hv. þm. ef hann hefur ekki áttað sig á því fyrr að ég á í engum vandræðum með orðið jafnaðarmaður. Ég þýði orðið sósíalisti eða ,,socialist`` sem jafnaðarmaður. Ég lít á mig sem róttækan vinstri mann, róttækan sósíalista, róttækan jafnaðarmann. Vonandi er hv. þm. sáttur við þessa orðanotkun. Í mínum huga er hins vegar aftur hv. þm. Össur Skarphéðinsson svona heldur miðlægur eða miðsækinn krati, miðsækinn jafnaðarmaður og það er önnur tegund. Það er önnur týpa, a.m.k. önnur undirtegund.

Varðandi samstarfsflokka okkar á Norðurlöndum þyrfti ég að fræða hv. þm. aðeins betur um það mál við tækifæri. En það er í grófum dráttum þannig að þrír af þeim flokkum eru andvígir aðild sinna þjóða að Evrópusambandinu, þ.e. vinstri flokkurinn í Svíþjóð, sósíalíski vinstri flokkurinn í Noregi sem er höfuðafl í andstöðunni þar og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð. Vinstrabandalagið í Finnlandi styður aðild Finnlands að Evrópusambandinu en sósíalíski þjóðarflokkurinn í Danmörku hefur verið einn af örlagavöldum Dana í Evrópumálum því hann hefur iðulega lagst gegn einstökum þáttum í Evrópusamningunum eins og Maastricht og átt stóran þátt í því að þeir voru felldir á sínum tíma, átti aðild að samkomulagi um undanþágur Dana á grundvelli Edinborgarsamninganna o.s.frv. Þetta þekkjum við nú.