Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:37:06 (5044)

2004-03-09 16:37:06# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:37]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Í dag hafa menn í ræðum sínum reynt að gera grein fyrir eigin stefnu í Evrópumálum. Menn hafa líka reynt að gera grein fyrir stefnu annarra flokka í Evrópumálum. Stefna og stefnumörkun Framsfl. hefur verið rakin ágætlega, m.a. af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Eins og fram kom í máli hans var eitt það fyrsta sem Evrópunefnd Framsfl. setti fram að unnið skyldi að því að uppfæra EES-samninginn.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að því meira sem ég set mig inn í þetta mál, ég vísa þar enn og aftur í fund með Evrópuþingmönnum sem við áttum á dögunum, sýnist mér að við getum ekki gert okkur vonir um annað en að við fáum einhverja smávægilega tæknilega uppfærslu á þessum samningi en ekki að öðru leyti. Þetta held ég að mörg okkar séum smátt og smátt að horfast í augu við þessar vikurnar og á næstu missirunum.