Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:32:16 (5055)

2004-03-09 17:32:16# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að í sjálfu sér hafi ekki orðið mikil breyting á þessu innan Evrópusambandsins. Það hefur stundum sýnt mikla hörku í því að verja hagsmuni sína en hins vegar verið tilbúið að stíga skref til málamiðlunar á alþjóðavettvangi í sambandi við alþjóðaviðskipti. En það veldur vissulega miklum áhyggjum hjá okkur sem stöndum utan við Evrópusambandið en erum samt á innri markaði þegar svona mál koma upp.

Ég get nefnt annað dæmi varðandi fiskimjöl frá því fyrir nokkrum árum. Þá munaði engu að við yrðum útilokaðir frá slíkum viðskiptum á innri markaðnum. Það má nefna stálmálið, í sambandi við Bandaríkin, og það má nefna fleiri mál. Þetta veldur miklum áhyggjum og við hljótum að horfa til þessa máls sem ég nefndi í sambandi við laxinn með vaxandi áhyggjum. En það er ekki nýtt. Það hefur komið fyrir að svokölluðum ,,anti-dumping`` reglum hafi verið beitt, m.a. í sambandi við þetta mál. Norðmenn hafa lent í miklum vandræðum. Við höfum ekki lent í sambærilegum vandræðum vegna þess að atvinnugreinin hefur verið tiltölulega lítil hjá okkur. En nú þegar fiskeldið er að vaxa hjá okkur getur þetta orðið vandamál.

Við munum að sjálfsögðu gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þetta. Við höfum þegar byrjað að gera ráðstafanir í því sambandi. En við vitum ekki um niðurstöðuna. Þetta er eitt af því sem fylgir því að standa utan við Evrópusambandið, hvort sem manni líkar betur eða verr. Ef við og Norðmenn værum aðilar þá væri þetta ekki vandamál.