Þingsköp Alþingis

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 19:08:48 (5074)

2004-03-09 19:08:48# 130. lþ. 79.11 fundur 458. mál: #A þingsköp Alþingis# (upplýsingar um hlutafélög) frv., 459. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., AtlG
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[19:08]

Atli Gíslason:

Frú forseti. Ég tek undir þá hugsun sem fram kemur í þessum frumvörpum. Mér hefur lengi verið hugsað til þess að stjórnsýslulögin sem sett voru á síðasta áratug, upplýsingalögin og lög um umboðsmann Alþingis, voru sett til að tryggja réttarstöðu einstaklinga gagnvart ríkinu. Síðan hefur þróunin orðið sú með vaxandi einkavæðingu að réttarstaða einstaklinga sem störfuðu hjá ríkisfyrirtækjum sem hafa verið einkavædd hefur versnað til muna.

Í störfum mínum sem lögmaður hafa bæði stjórnsýslulög og upplýsingalög, svo ekki sé talað um umboðsmann Alþingis, verið það haldreipi sem best hefur dugað. Það er miður að upp úr þessum haldreipum trosnar þegar fyrirtæki í ríkiseigu hafa verið einkavædd. Frelsið hefur komið á undan. Ég hef sjálfur kallað það að menn hafi einkavætt frelsið en ekki ábyrgðina. Það hefur skort á að ábyrgðin hafi verið einkavædd. Þessu virðast hæstv. forsrh. og fleiri gera sér grein fyrir, m.a. í opinberum ummælum um bankastofnanir og fleiri fyrirtæki.

Þannig hefur ekki tekist til sem skyldi með einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka. Þessi stóru fyrirtæki hafa færst á fárra manna hendur. Þeir sem stýra þeim eru einir á ferli og réttarstaða starfsmanna hefur skerst til muna.

Ég hef talað fyrir því, eins og ég sagði áðan, að ábyrgðin verði einkavædd. Þess vegna hef ég m.a. beint fyrirspurnum til hæstv. forsrh. um hvort ekki beri að huga að gildissviði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga í þá veru að þau taki til stærri fyrirtækja, fyrirtækja sem hafa mikla eða markaðsráðandi stöðu, og eins þjónustufyrirtækja sem tekið hafa að sér verkefni í almannaþágu. Ég vænti að í þessu felist svipuð eða sama hugsun og fram kemur í þeim frumvörpum sem hér eru til umræðu. Ég vildi vekja athygli á þessum þáttum og beini því til hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að huga að áðurnefndum fyrirspurnum þegar þær koma til svars og ganga til liðs við mig með að herja á hæstv. forsrh. um að veita svör við þeim þannig að hæstv. forsrh. verði sjálfum sér samkvæmur þegar kemur að ábyrgðinni.