Afplánun íslensks ríkisborgara í Texas

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:43:46 (5081)

2004-03-10 13:43:46# 130. lþ. 80.91 fundur 390#B afplánun íslensks ríkisborgara í Texas# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað að meðferð máls hins unga Íslendings, Arons Pálma Ágústssonar, hefur vakið bæði undrun og hrylling allra þeirra sem hafa fylgst með því og ástæða til að þakka hæstv. utanrrh. og íslenskum stjórnvöldum fyrir þann atbeina sem þau hafa haft að málinu. Það er alveg augljóst að mikið hefur verið gert til að reyna að hafa áhrif á gang málsins.

Hins vegar er staðan sú, eins og allir vita, að við höfum því miður ekki haft erindi sem erfiði í þessu máli. Þess vegna er ástæða til að fagna því að hæstv. utanrrh. vilji halda áfram því verki sem hann hefur hafið, að reyna að bæta úr varðandi þennan unga Íslending. Ég held að öllum sé ljóst og allir sammála um að það er mjög mikilvægt að áfram verði haldið að vinna að hagsmunum hins unga manns og tryggja að mál hans fái annan endi en stefnir í núna. Það er augljóst mál að meðhöndlun málsins og meðferð þessa unga manns hefur verið með allt öðrum hætti en þeim sem við teljum viðunandi hér á Íslandi og í hinu íslenska réttarríki. Þess vegna er full ástæða fyrir okkur að hafa það í huga að hér er á ferðinni ungur Íslendingur sem á undir högg að sækja við aðstæður sem eru alls ekki bjóðandi. Þess vegna er ástæða til að fagna yfirlýsingu hæstv. utanrrh.