Framboð og kjör forseta Íslands

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:46:52 (5310)

2004-03-15 15:46:52# 130. lþ. 83.15 fundur 748. mál: #A framboð og kjör forseta Íslands# (kjörskrár, mörk kjördæma) frv. 9/2004, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, með síðari breytingu.

Í frv. eru lagðar til tvær breytingar á lögunum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að mörk syðra og nyrðra kjördæmis í Reykjavík verði þau sömu og við síðustu alþingiskosningar. Breytingin er nauðsynleg til að umboð yfirkjörstjórna, sem er staðbundið, liggi fyrir þegar þær gefa út vottorð um kosningabærni meðmælenda vegna framboðs til forsetakjörs, komi til þess.

Í öðru lagi er lagt til að kjörskrá miðist við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag, enda er í framkvæmd engin þörf á að hafa frestinn lengri. Að óbreyttum lögum er viðmiðunin fimm vikur fyrir kjördag sem þýðir að hefja þyrfti umfangsmikla og kostnaðarsama kjörskrárgerð áður en framboðsfrestur er liðinn.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.