Afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 13:48:33 (5335)

2004-03-16 13:48:33# 130. lþ. 84.91 fundur 408#B afgreiðsla frumvarps um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kemur hingað upp í hlutverki spákonu, en ekki hafa allir spádómar hans ræst og hygg ég að það eigi við í þessu sem og mörgum öðrum spádómum hv. þm.

Ég vil jafnframt nefna það að röksemdin gengur ekki upp hjá hv. þm. þegar hann segir að hæstv. ráðherrum komi málið ekkert við. Auðvitað kemur hæstv. ráðherrum málið við.

Það má vekja athygli hv. þm. á því að málinu hefur verið vísað til þingnefnda og er þar með í höndum þingnefnda (SJS: Hver ræður þingstörfum?) Hv. þm. verður að tala þannig að röksemdafærslan gangi upp hjá honum.

Hvað hefur gerst í málinu? Hæstv. umhvrh. hefur lagt fram frv., kynnt það með ákveðnum forsendum og um það hefur verið fjallað við 1. umr. og því síðan beint til hv. umhvn. Síðan gerist það að forsendur breytast og hæstv. umhvrh. lýsir þeim sjónarmiðum. Það er ekkert óeðlilegt við það að hæstv. ráðherra lýsi þeirri skoðun sinni að forsendur hafi breyst og hvetur til þess að sættir náist frekar á heimaslóð. Það er ekkert óþinglegt við það, frú forseti. (SJS: Ætlar þú að fara að kenna ...?)