Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:04:04 (5365)

2004-03-16 16:04:04# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Já, það er aldrei að vita nema fleiri sláist í hópinn með hv. þingmanni og nuddist áfram með honum fyrir sjálfstæðri aðild Færeyja að Norðurlandasamstarfinu.

Það sem ég hefði þó viljað nota þetta seinna andsvar til er að koma inn á annað sem hv. þm. nefndi í ræðu sinni og það varðaði starf norrænu félaganna. Það er náttúrlega einn farvegurinn til að vekja athygli á þessum störfum á vegum Norðurlandaráðs, norrænu ráðherranefndarinnar og norræna samstarfsins í það heila. Ég fagna því, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði, að það tókst að tryggja Norræna félaginu og þeirri starfsemi sem þar er rekin aukinn stuðning í fjárlagagerðinni núna. Það er Halló Norðurlönd, skrifstofan þeirra, sem veitir þessa leiðbeiningaþjónustu til fólks sem þarf að fara á milli en Halló Norðurlönd safnar líka upplýsingum um landamærahindranir og kemur þeim til skila til þeirra sem hafa það í hendi sér að bregðast við þeim vanda.

Hv. þm. hafði sérstaklega orð á því að hann tilheyrði flokkahópi vinstri grænna á Norðurlandaráðsþinginu og tók það svo fram að þeir væru minnstir og duglegastir. Ég tilheyri flokkahópi miðjumanna og ég vil þá fá að geta þess líka að þeir eru stærstir og mjög duglegir þó að ég fari ekki í meting við hv. þingmann um dugnaðinn.

Það sem ég held að sé kannski eitt það erfiðasta í þessu Norðurlandaráðssamstarfi er dvínandi áhugi íslensks æskufólks á norrænu tungumálunum og því að læra þau. Ég held að m.a. með aðild Eystrasaltsríkjanna að Norræna fjárfestingarbankanum þar sem framvegis verður töluð enska en ekki norræna sjáum við svolítið inn í framtíðina á þessu sviði. Ég vil þá í þessu samhengi leggja áherslu á að ég er eindreginn stuðningsmaður þess að gefa ungu æskufólki kost á að læra eitthvert norrænu tungumálanna en mér sýnist tungumálið valda því að áhuginn á norrænu samstarfi er minni en oft hefur verið áður.