Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:08:48 (5367)

2004-03-16 16:08:48# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, SKK
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Frú forseti. Mig langar til að segja nokkur orð um þessa skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2003. Ég tók sæti í henni að loknum kosningum til Alþingis þann 10. maí sl. þegar ég var kosinn hér á þingi til setu í henni. Í kjölfarið var mér falið að taka sæti Arnbjargar Sveinsdóttur sem áður hafði verið fulltrúi Íslands í Norðurlandaráði og fulltrúi í Íslandsdeild Norðurlandaráðs í tveimur nefndum, annars vegar í eftirlitsnefnd ráðsins og hins vegar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd. Mig langaði í þessari stuttu tölu að gera í örstuttu máli grein fyrir því sem gert var í þessum tveimur nefndum og áherslum íslensku fulltrúanna þar.

Um eftirlitsnefndina er í sjálfu sér ekki mikið að segja. Sú nefnd fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Nefndin hafði sérstaklega með höndum verkefni sem varða úttekt á því hvernig nýtt skipulag Norðurlandaráðs virkar og heildarúttekt á upplýsingastarfi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til að fara út í þau atriði hér en mig langar til að víkja aðeins að atriðum sem varða umhverfis- og náttúruauðlindanefndina sem, eins og ég segi, ég hef setið í frá því um mitt síðasta ár.

Nefndin annast málefni sem varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál, og eins og segir í skýrslunni á bls. 6 eru meðal helstu verkefna nefndarinnar vísindaráðgjöf við ákvörðun fiskkvóta og stuðningur við hafrannsóknastofnanir á Norðurlöndum. Það verður samt að segjast eins og er að meginþunginn í starfi nefndarinnar hefur varðað kannski önnur mál en sjávarútvegsmál, þ.e. umhverfismál sem varða umhverfi Eystrasaltsins og skipaumferð á því svæði. Menn hafa líka rætt um verndun hafsins, losun sorps og úrgangs í Norðursjó og hafsvæðin sem tilheyra þessum löndum sem mynda Norðurlandaráð. Sömuleiðis hefur mikið verið rætt um Sellafield-kjarnorkuverið og ýmis önnur atriði sem varða helst Skandinavíulöndin en auk þess hefur mikið verið lagt upp úr samstarfi á vettvangi umhverfismála við Eystrasaltslöndin og ekki síst við Vestur-Rússland.

Mig langar til að nefna það að við Íslendingar höfum á þessu starfsári Norðurlandaráðs hvað mest látið okkur hvalveiðar varða, þ.e. á vettvangi umhverfis- og náttúruauðlindanefndar. Í upphafi átti hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, sem þá sat í nefndinni, frumkvæðið að því að haldið var málþing í þinghúsinu í Stokkhólmi um hvali og seli. Á þessu málþingi var fjallað um stofnstærðir og forsendur fyrir sjálfbærri nýtingu, í annan stað um rök og gildi í hvalaumræðunni og þróun hennar og í þriðja lagi var fjallað um hina pólitísku hlið málsins.

Sjálfur sótti ég ekki þessa ráðstefnu en ég get þó upplýst um það að í kjölfar júnífundar Norðurlandaráðs í Villmanstrand í Finnlandi hélt umhverfis- og náttúruauðlindanefnd sinn árlega sumarfund áður en nefndin hélt frá Finnlandi og til Eistlands. Á þeim fundi gerði ég grein fyrir því fyrir hönd íslensku sendinefndarinnar að hún hefði, og við Íslendingar, orðið fyrir miklum vonbrigðum með afstöðu Svía og annarra Norðurlandaráðsþjóða á aðalfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem sérstaklega Svíar stóðu gegn þeim sjónarmiðum sem íslenskir fulltrúar á þeim aðalfundi töluðu fyrir. Þessi ályktun var bókuð og undir hana tekið, sérstaklega af hálfu Norðmanna sem hafa forsæti í nefndinni en sömuleiðis, eins og við mátti búast, tóku fulltrúar Grænlands og Færeyja undir málstað okkar hvað þetta varðar.

Á þingi Norðurlandaráðs í Ósló í nóvember sl. hélt ég ræðu þar sem ég ítrekaði sjónarmið okkar varðandi sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og vísaði til þess að ég teldi ósamræmi í því að Norðurlönd berðu sér á brjóst og teldu sig í fararbroddi hvað varðaði sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda en um leið virtust sum löndin vera á móti sjálfbærri nýtingu sjávarspendýra. Menn eru hlynntir, og einstök Norðurlönd eru hlynnt, sjálfbærri nýtingu á tyllidögum en horfa fram hjá þeim prinsippum og eigin málflutningi þegar það hentar þeim.

Ég benti á að vandamálin varðandi hvalveiðar væru flókin en ef reynt væri að einfalda málið eins og frekast er unnt stæði eftir spurningin um það hvort ekki ættu að gilda sömu reglur um nýtingu auðlinda sjávar og um nýtingu annarra auðlinda. Ég sagði að fyrir þjóðir sem væru háðar nýtingu sjávarauðlinda væri óþolandi að aðrar kröfur væru gerðar til veiða í hafi en veiða á landi. Í báðum tilfellum hlyti grundvallarreglan að vera sú að maðurinn hefði rétt til nýtingar á villtum dýrastofnum, svo lengi sem það væri gert á ábyrgan og sjálfbæran hátt, og þetta hlyti að vera grunnkrafa gagnvart öllum veiðum, hvort sem um væri að ræða hvalveiðar í Norður-Atlantshafi eða veiðar á elgjum og dádýrum á landi í Skandinavíu, þá kannski einkum í Svíþjóð.

Vonandi hefur þessi gagnrýni okkar á afstöðu, þá einkum Svía, til hvalveiðimála náð eyrum þeirra en satt best að segja hefur hún ekki orðið til neinnar verulegrar umræðu um málið umfram það sem var á málþinginu sem ég nefndi áðan.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi farið yfir þau atriði sem hér hafa verið tekin til skoðunar og kannski þau áhersluatriði sem við Íslendingarnir höfum haft varðandi þau málefni sem falla undir þessar tvær nefndir.