Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:23:52 (5371)

2004-03-16 16:23:52# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég komi að öllum þeim atriðum sem hér voru nefnd, eða ég ætla að gera mitt besta til þess, þá voru eins og ég sagði í ræðu minni málefni Eystrasaltsins og umhverfismál á Eystrasalti mjög til umræðu innan Norðurlandaráðs og hafa verið lengi. Umhverfisslys hafa orðið í Eystrasalti og við Eystrasaltið og þetta eru mál sem þjóðirnar eru að taka á. Menn óttast mjög siglingar stórra skipa frá Vestur-Rússlandi og inn á Atlantshafið og eftir því sem ég best veit hefur orðið umhverfistjón vegna þeirra siglinga. Að sama skapi er það svo að áður en Ráðstjórnarríkin féllu og Sovétríkin liðu undir lok voru umhverfisspjöll í Eystrasaltsríkjunum gríðarleg, m.a. við ströndina í Eistlandi og menn hafa verið að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að sú mengun smitist út í Eystrasaltið. Það er því fullt af verkefnum á þessu sviði sem varða Eystrasaltið sem menn hafa verið að ræða á vettvangi þessarar nefndar.

Varðandi hvalveiðarnar tel ég að Norðurlandaráð sé prýðilegur vettvangur til þess að koma sjónarmiðum okkar á framfæri hvað þær varðar. Það höfum við gert bæði innan nefndarinnar og sömuleiðis á þingi Norðurlandaráðs. Og að loknu síðasta Norðurlandaráðsþingi tók Ásta R. Jóhannesdóttir, hv. þm. Samf., sæti í nefndinni og hefur m.a. sótt aðalfund NAMMCO til þess að fylgjast með og gæta hagsmuna okkar og tala máli okkar Íslendinga á þessu sviði. Ég tel því að þetta sé ágætisvettvangur til þess að láta rödd okkar Íslendinga heyrast, virðulegi forseti.