Útlendingar

Mánudaginn 22. mars 2004, kl. 16:40:36 (5578)

2004-03-22 16:40:36# 130. lþ. 87.11 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við eigum eftir að heyra það frá útlendingum og þeim sem hafa unnið mest með þeirra mál hvort þeir líti á frv. sem réttarbót. Ég leyfi mér að efast um að svo sé.

En hæstv. ráðherra verður að svara því, mér fannst það ekki koma skýrt fram í ræðu hans hvað það er sem kallar á þessar breytingar. Hversu mörg tilfelli erum við að tala um þar sem um er að ræða rökstuddan grun um nauðungarhjónabönd, um að foreldrar séu að ráðstafa börnum sínum hjúskap --- eftir þeim heimildum sem ég hef eru slík dæmi vart til hér á landi --- eða um málamyndahjónabönd? Það hljóta að vera einhver haldbær rök fyrir því að verið er að fara út í eins alvarlegar aðgerðir og hér er lagt til. Ég vil taka fram eins og ég sagði í ræðu minni að ég er sammála því eða ég tel ekkert óeðlilegt við að refsivert sé að stofna til málamyndahjónabands til þess eins að öðlast dvalarleyfi. En ég leyfi mér að spyrja hvort ástæða sé til að setja þessar reglur, hvort vandamálið sé raunverulegt. Í öðru lagi set ég mikla fyrirvara við það sem talað er um í athugasemdum hvernig eigi að meta þetta, hvort fólk skilji tungu hvors annars, hvort verulegur aldursmunur sé á milli hjóna. Almáttugur. Eru þetta haldbær rök að leggja fram í frv. frá hæstv. dómsmrh. nema hann geti þá sagt að þetta sé stórt vandamál?

Og af því að alltaf er verið að vísa til annarra þjóða og þess sem þær eru að gera, þá erum við að tala um Norðurlöndin þar sem hlutfall útlendinga af íbúafjölda er mun hærra en hér á landi. Erlendir ríkisborgarar eru 3,5% af íbúafjölda hér á landi, allflestir á vinnumarkaði. Við erum með allt önnur vandamál hér heldur en þar. Við eigum að fara varlega og við eigum að gæta þess að við lendum ekki í sömu vandræðum, en við megum ekki apa eftir hluti jafnvel þó að þeir sé framkvæmdir á Norðurlöndunum þar sem hugsanlega eru raunveruleg vandamál til staðar sem verið er að takast á við. En við eigum að fara varlega í að setja svona verulegar takmarkanir á persónuvernd og persónufrelsi og friðhelgi einkalífs eins og lagt er til í frv.