Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 15:05:26 (5660)

2004-03-29 15:05:26# 130. lþ. 89.1 fundur 437#B stjórn fiskveiða# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín er til hæstv. sjútvrh. um framkvæmd á 12. gr. fiskveiðistjórnarlaganna en 1. mgr. hennar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þegar fiskiskipi hefur verið úthlutað aflamarki er heimilt að flytja aflamarkið milli skipa enda leiði flutningurinn ekki til þess að veiðiheimildir skipsins verði bersýnilega umfram veiðigetu þess.``

Í fyrirspurn minni til hæstv. sjútvrh. og svari hans um eftirstöðvar rækjukvóta undanfarinna fiskveiðistjórnarára kemur margt skringilegt í ljós sem á ekki að geta gengið að mínu mati miðað við þessa 1. mgr. 12. gr. sem ég las upp. Þannig er, virðulegi forseti, að minnsti bátur á Íslandi sem er með skráðan rækjukvóta er sirka tveggja brúttólesta trilla sem getur ekki veitt rækju.

Önnur dæmi sem koma fram í svari hæstv. ráðherra sýna hreinlega, að mínu mati, að verið er að braska með rækju, kaupa óveidda rækju og skrá á smábáta til að geta leigt frá sér dýrari tegund, t.d. þorsk. Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, nefna fleiri dæmi í þessu sambandi, eins og þegar menn eru að leika sér að því með 5 brúttólesta trillu að kaupa rúm 70 tonn af rækju og leigja til sín fyrir 600--700 þús. kr. Á sama tíma leigja þeir frá sér um 100 tonn af þorski fyrir 7--8 millj. kr.

Fyrirspurn mín til hæstv. sjútvrh. er þessi: Telur hæstv. sjútvrh. þetta samrýmast áðurnefndri 1. mgr. 12. gr. fiskveiðistjórnarlaga?