Hugbúnaðarkerfi ríkisins

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:10:24 (5697)

2004-03-29 16:10:24# 130. lþ. 89.94 fundur 436#B hugbúnaðarkerfi ríkisins# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég sat í morgun og reyndi að átta mig svolítið á þessu máli. Ég skildi í raun og veru ekki alveg hvað Samf. var að fara með því að efna til þessarar umræðu. Ég las í gegnum þessi svör og verð bara að segja í fullri hreinskilni að mér finnast svör hæstv. fjmrh. vera þokkalega sannfærandi.

Ég held að öllum ætti að hafa verið ljóst að 160 millj., ef það hefur verið nefnt í upphafi, er allt of lág tala. Hér er um að ræða mjög umfangsmikinn hugbúnað, það er alveg greinilegt af þessu svari, hugbúnað sem réttilega, eins og hæstv. fjmrh. benti á, leysir af eldgamlan og úr sér genginn hugbúnað sem hafði verið í gildi í ein 20 ár. Hér er verið að fjárfesta í nýjum búnaði fyrir hið opinbera, búnaði sem á að endast í a.m.k. tíu ár og sennilega gott betur. 160 millj. kr. tala fyrir slíkan búnað er út í bláinn. Þó að ég hafi ekki mikið vit á tölvum eða þeim pakka sem var verið að bjóða út hefði ég a.m.k. brugðist við og talið að þetta væri allt of lág tala.

Ég var ekki á þingi þegar málið var til umfjöllunar en hefði ég verið það hefði ég alveg örugglega staldrað við og einmitt gert athugasemd um það að þetta væri allt of lág tala. Mér finnst, eins og ég sagði áðan, svar hæstv. fjmrh. bara nokkuð sannfærandi og get ekki séð að það hafi verið staðið neitt svo hræðilega illa að þessu. Tveir milljarðar eru að sjálfsögðu há tala en það verður bara svo að vera. Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur, hér er verið að fjárfesta í kerfi sem á að vara í a.m.k. tíu ár, sennilega 20.