Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 16:35:41 (5708)

2004-03-29 16:35:41# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Gallinn við íbúðakaup hefur verið sá að þau eru ekki rétt, þ.e. seljandinn hefur verið látinn bera afföllin af húsbréfunum í staðinn fyrir kaupandann. Það hefur leitt til alls konar vandræða í gegnum tíðina. Það kom bersýnilega í ljós þegar gengið á húsbréfum fór upp fyrir nafnverð því að þá gat kaupandinn að sjálfsögðu farið og selt húsbréfin og borgað með staðgreiðslu.

En þetta er aukavandamál. Það sem við glímum við er alltaf sá vandi ef sá sem tekur lán má greiða upp lánið en sá sem fjármagnar lánið með skuldabréfaútgáfu, þ.e. Íbúðalánasjóður eða einhver annar, þarf að geta mætt því þegar of margir greiða upp vegna þess að vextir hafa lækkað.

Í húsbréfum var þetta gert þannig að það mátti fara fram aukaútdráttur á húsbréfum ef of margir greiddu upp húsbréfin, t.d. þegar vextir lækkuðu. Ef vextir á markaði lækkuðu umtalsvert niður fyrir ávöxtunarkröfuna á húsbréfunum þá borgaði sig fyrir fólk að greiða upp lánin sín til að taka ný lán. Þarna er þó um ákveðinn þröskuld að ræða, þ.e. vextir þurfa að vera töluvert lægri vegna stimpilgjalda og lántökukostnaðar o.s.frv.

Þessi vandi, sem er nánast óleysanlegur, er ekki leystur í frv. Gert er ráð fyrir að skuldabréfin sem eru seld verði með óbreytanlegum vöxtum. Þau eru seld á ákveðnum degi með ákveðinni ávöxtunarkröfu og þar með er búið að negla niður vextina til framtíðar. Síðan er heimilt að setja á ákveðið álag, vaxtaálag, sem Íbúðalánasjóður getur bætt ofan á til að mæta þessari vaxtaáhættu, þ.e. ef vextirnir skyldu nú lækka og íbúðakaupendur færu að greiða upp lánin í stórum stíl. En það er hætt við því að það álag geti orðið allt of lágt ef um er að ræða umtalsverða vaxtalækkun á markaði, segjum 2--3%, ef vextir færu niður í það sem er í löndunum í kringum okkur þar sem raunvextir eru kannski 2--3%. Þá getur þetta orðið óskaplegur baggi fyrir ríkissjóð og ég vara við því. Ríkissjóður er með ábyrgð á þessum bréfum en hefur enga útgönguleið ef vextir lækka mjög mikið. Það getur orðið mjög þungbært fyrir ríkissjóð.

Ég vildi eingöngu koma upp til að benda á þetta. Við erum að reyna að leysa óleysanlegt vandamál sem felst í því að skuldarinn má greiða upp.

Annað ráð við því væri hreinlega að skuldarinn mætti ekki greiða upp nema taka á sig afföllin, sem hann þá yfirleitt réði ekki við. Það mundi þýða að ákvörðun um að taka lán væri mjög mikil ákvörðun, menn væru þá að negla niður vexti sem þeir þyrftu að borga í 40 ár eða hver sem lánstíminn er.

Þarna verður ekki haldið og sleppt. Menn þurfa að átta sig á þessu og ganga með galopin augun af því að þeir eru að taka á sig mjög mikla skuldbindingu fyrir ríkissjóð og ég vara við því.