Húsnæðismál

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 17:32:24 (5720)

2004-03-29 17:32:24# 130. lþ. 89.7 fundur 785. mál: #A húsnæðismál# (íbúðabréf) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[17:32]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti athyglisvert að heyra hv. þingmann tala um möguleika á því að stífla gæti myndast í kerfinu sem brysti þegar nýja kerfið kæmi á. Ég vil rifja það upp að það sem hér er verið að leggja til að taka upp er í raun og veru svipað kerfi og samdist um milli þáv. ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingarinnar árið 1986 og kallað var 86-kerfið, peningalánakerfi með föstum vöxtum. Þá stóð hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hér í þingsölum, talaði mjög gegn því og hvatti fólk til að sækja um vegna þess að stífla mundi myndast í því kerfi sem menn mundu ekki ráða við, ekki væri til nægjanlegt fjármagn til að standa undir eftirspurninni. Þingmaðurinn bjó til það ástand að kerfið í raun og veru sprakk, 86-kerfið komst aldrei almennilega á koppinn vegna þess að búið var til það ástand sem eyðilagði kerfið. Fjármagnsmarkaðurinn var ekki orðinn það öflugur að hann gæti tekið við þessari skyndilegu eftirspurn sem kölluð var fram.

Nú eru allt aðrar aðstæður í þjóðfélaginu, nægjanlegt fjármagn til, þannig að ég sé ekki neinar þær forsendur fyrir hendi sem geta rökstutt það að það ráði ekki við breytingar á eftirspurn sem geta auðvitað orðið frá einum tíma til annars, jafnvel þó að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir leggi sig fram um að búa til eins mikla eftirspurn og hægt er til að koma kerfinu á kné.

Út af fyrir sig kemur andstaða þingmannsins og neikvætt tal ekki á óvart því að þetta er í samræmi við málflutning þingmannsins á þeim tíma sem menn voru að byrja að taka upp þetta kerfi sem nú í raun og veru er verið að endurvekja.