Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 18:47:56 (5740)

2004-03-29 18:47:56# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[18:47]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála þeim röksemdum hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að það skipti máli við mat á málinu hversu margar fisktegundir eru utan kvóta og verðmæti þess afla sem hægt er að veiða þar. Þær breytingar sem orðið hafa síðan eru í meginatriðum þær að tegundum innan kvóta hefur fjölgað og ábatasamar veiðar á tegundum utan kvóta hafa dregist saman vegna þess að möguleikarnir eru miklu minni. Það eru eðlileg rök sem ég fellst á í málinu.

Greiningin á dómi Hæstaréttar var ekki bara greining þeirra sem voru í meiri hluta sjútvn., heldur líka unnin í samráði við þá fjóra lögfræðinga sem ríkisstjórnin fékk sér til ráðuneytis. Sú niðurstaða að ekki væri verið að krefjast kvótasetningar í dómnum er ekki bara niðurstaða okkar. Hún er almenn niðurstaða þeirra sem fjölluðu um málið. Menn féllust á að sú tillaga ríkisstjórnarinnar gengi lengra en dómurinn gerði kröfur um og að ekki væri verið að gera kröfu um framseljanlegt aflamarkskerfi, hins vegar væri verið að gera kröfu um að menn gætu komist inn í kerfið án þess að aðgangshindrunin væri of stór.

Þess vegna tel ég t.d. hugmyndir sem verið hafa á kreiki hjá launþegasamtökum sjómanna og LÍÚ um að takmarka leiguframsal á kvóta vinna gegn dómi Hæstaréttar. Hún gerir mönnum síður kleift að leigja til sín kvóta á viðráðanlegu verði. Ég tel að slíkar breytingar á lögum mundu vinna gegn anda dóms Hæstaréttar.