Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 29. mars 2004, kl. 19:03:01 (5747)

2004-03-29 19:03:01# 130. lþ. 89.8 fundur 485. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar handfærabáta) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 130. lþ.

[19:03]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að taka eftir því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur sagt um þessi mál í dag. Hv. þm. er talsmaður Framsfl. í sjávarútvegsmálum og varaformaður sjútvn. og hefur lýst því yfir mjög skýrt að hann muni fylgja þessu máli eftir hvort heldur ráðherrann komi með málið hér inn eða ekki.

Það er full ástæða til að menn standi við orð sín í þessu efni því að vandinn í sjávarbyggðunum og sjávarútveginum núna er fyrst og fremst fólginn í því að engin nýliðun er í greininni. Vandinn er fólginn í því ranglæti sem menn hafa komið á í sjávarútvegi þar sem eignarhald hefur verið sett á réttinn til að veiða fisk og því úthlutað með hinum aðskiljanlegustu aðferðum til hinna ýmsu aðila í sjávarútvegi þar sem samræmið er ekki mjög merkilegt oft og tíðum. Það eru alveg jafngóð og sennilega hægt að segja miklu betri rök fyrir því ef mönnum dytti t.d. í hug að úthluta framtíðaraflaheimildum hvort sem þær væru í formi sóknareininga eða kvóta til smábátanna í þessu kerfi, að þeir ættu að fá fullkomlega það sem þeir hafa verið að veiða síðustu tvö eða þrjú árin, eins og oftast nær hefur verið miðað við þegar úthlutun hefur verið gerð í kerfinu, eins og að taka eigi tillit til einhvers alls annars, kannski langt aftur í tímann, 1997 eða eitthvað svoleiðis, eins og stendur núna í lögunum.

Það er eiginlega svo að Alþingi verður að horfast í augu við það að hér hefur ekki verið samræmi í hlutunum. Hér hafa verið notaðar aðferðir sem eru óforsvaranlegar um langa tíð. Vandinn í þessu er svo sá að sjávarbyggðirnar allt í kringum landið líða fyrir það að engin nýliðun er í sjávarútvegi og ef menn láta það viðgangast að dagakerfið hverfi líka ofan á allt annað sem hefur verið að gefa sig hvað varðar nýliðun er alveg augljóst að margar af minni sjávarbyggðunum munu verða fyrir miklum áföllum. Það er augljóst að ef menn taka ekki þá ákvörðun að varðveita dagakerfið með því að setja botn í það hrynur sá floti sem verið hefur að stunda veiðar eða sá hópur útgerðarmanna sem verið hefur að stunda veiðar gufar upp. Þar eru menn á mörkunum. Það verður ekki hægt að varðveita kerfið ef menn láta dagana rýrna niður fyrir 18, 19 daga eða eitthvað slíkt. Menn munu missa trú á kerfið í hrönnum og það mun þá skreppa saman eins og reyndar gert var ráð fyrir í þeim lögum sem sett voru.

Hv. þm. rifjaði upp umræðurnar í sambandi við lagasetningu í kjölfar á svokölluðum Valdimarsdómi þar sem talað er um að menn hafi byggt niðurstöðu sína á hæstaréttardómnum. Menn byggðu niðurstöðuna á túlkun sinni á hæstaréttardómnum og Hæstiréttur varð síðan fyrir þvílíkri árás af hendi hæstv. forsrh. að ekki eru til dæmi um annað eins. Hvað gerðist síðan í framhaldinu? Það sem gerðist var að tveir af þeim fimm dómurum sem tóku þátt í því að dæma fyrri dóminn lentu í því að verða ósammála öðrum sem tóku þátt í að kveða upp þann sama dóm í næsta dómi á eftir. Það er auðvitað ömurlegur ferill að öllu leyti að svo skuli hafa verið. Það var ekki sjálfgefið mál, nema síður væri, að hæstaréttardómurinn skyldi vera skýr hvað það varðaði að menn ættu að fá úthlutað veiðileyfi ef þeir sæktu um það þýddi að það væri brot á stjórnarskránni eins og meiri hlutinn túlkaði það, fengju þeir ekki veiðileyfi sem væri bara til þess gert að hengja upp á vegginn hjá sér og því fylgdu engin réttindi til að veiða fisk. Þetta var það sem verið var að bjóða mönnum upp á í túlkuninni og í framhaldi af því bjuggu menn til þetta kerfi. Menn standa bara frammi fyrir því sem gerðum hlut, og ef menn láta lagasetninguna sem þar liggur til grundvallar ganga áfram mun molna undan atvinnumöguleikum þeirra manna sem gera út á þessa litlu báta. Það skiptir ekki litlu máli hvort 322 atvinnutæki fái möguleika til þess að vera rekin áfram eða hvort þau séu slegin af, eins og lögin gera ráð fyrir að gerist. Ef menn láta lögin standa og halda áfram að skerða þetta munu menn sitja eftir með það að eftir tiltölulega fá ár yrði einungis örlítill hluti flotans eftir með þau veiðiréttindi sem miðað var við að hann ætti að fá á árunum 1997/1998 og 1996/1997 sem viðmiðanirnar voru teknar við. Auðvitað hljóta menn að taka tillit til þessa ástands þegar þeir taka afstöðu til þess hvort þeir styðji það mál sem hér liggur fyrir.

Reyndar liggur fyrir afstaða til málsins að því leyti til að fram fór atkvæðagreiðsla um þessar tillögur í vetur. Greitt var atkvæði um þær sem breytingartillögur við lögin um stjórn fiskveiða sem breytt var í vetur þegar línuívilnunin var til afgreiðslu. Þá voru þessar tillögur felldar. Við samfylkingarmenn studdum fyrri hluta þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir, þ.e. um 23 sóknardaga, en við sátum hjá við aukninguna í síðari hluta tillögunnar, sem gengur út á það að bæta eigi við einum degi fyrir hver 20 þús. tonn sem leyfður þorskafli yrði hækkaður. Það liggur því algerlega fyrir að við styðjum þetta. En það liggur að mínu viti hreint ekki fyrir hvort liðsinni er í stjórnarflokkunum við málið vegna þess að það var fellt fyrr í vetur og það væri fróðlegt að vita hvers vegna menn eru svona vissir um að það sé meiri hluti fyrir málinu. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson getur kannski útskýrt það fyrir okkur á eftir úr því að það féll við atkvæðagreiðslu í vetur.

Mín skoðun er sú að á meðan þetta ólánskerfi er til staðar, það kvótakerfi sem er til staðar núna, eigi menn að viðhalda dagakerfinu innan kerfisins og menn eigi ekki að setja hömlur á það nema sem allra minnstar. Ég tel að eðlilegast væri að menn mættu stækka þá báta sem eru í kerfinu upp í 6 tonn og að þeir fengju þá að veiða 23 daga á ári. Og mér finnst það ekkert annað en byggðastefna sem fólgið er í því að reyna að sjá til þess að þessi floti geti fengið að fiska. Ég sé ekki nokkurn hlut eftir þeim fiski sem hann ber að landi.

Við getum bara litast um á bryggjunum í þeim sjávarbyggðum þar sem vertíðarflotinn er gufaður upp, þar sem krókaaflamarksbátunum hefur fækkað síðustu árin og sér fram á fækkun í þeim. Og það að styðja við þennan flota í staðinn getur hjálpað eitthvað og þó að það sé kannski ekki mikið skiptir það mjög miklu máli fyrir ýmsar hinar smærri byggðir. Það er þess vegna skoðun mín að leyfa eigi þessum flota að veiða 23 daga, að leyfa eigi að þessir bátar stækki upp undir 6 tonn, en það eigi ekki að fara út í eitthvert kukl í kringum vélarafl eða eitthvað slíkt á þeim flota. Menn eigi bara að horfast í augu við að þeir varðveita hér yfir 300 atvinnutækifæri og gera þau að alvöruatvinnutækifærum inn í framtíðina á bátum sem er alveg fullkomlega verjandi að gera út frá 1. apríl og fram til 1. september eins og verið hefur.

Þetta er það sem ég vildi koma á framfæri og mér finnst eiginlega ekki hægt að gera neitt minni kröfur hvað það varðar að á meðan þetta arfavitlausa kvótakerfi er til staðar sjái menn a.m.k. til þess að ekki sé verið að rústa meiru en þörf er á, og að það sé til staðar svolítill stokkur af smábátum sem geta staðið undir nafni og hægt er að hafa sæmilega afkomu við að gera út.