Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:29:28 (5770)

2004-03-30 14:29:28# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gat þess ekki nógu skýrt að málið kom auðvitað fyrir síðasta löggjafarþing og fór til landbn. og umfjöllunar hér þannig að það er búið að fá mikla meðferð.

Hv. þm. kemur inn á nokkur atriði og segir mikilvægt að tryggja ekki síst stöðu ábúandans. Ég tók það fram að þarna væri tekið tillit til hvors tveggja, eiganda jarðarinnar og ábúandans.

Það er nú töluverð tíska og margir eiga orðið jarðir og bújarðir en þeir hafa veigrað sér við að byggja þær jarðir vegna gildandi laga. Þau hafa verið það vilhöll ábúandanum að menn hafa jafnvel tapað eign sinni hér um bil frá sér. Það er því mjög mikilvægt að færa þetta í nútímahorf.

Hv. þm. hefur verið bóndi, átt jörð og verið stór atvinnurekandi á einni stærstu jörð Íslands þannig að hann þekkir hve mikilvægt það er að standa vel að málinu, hafa um það rétta samninga og standa rétt að leigu jarða. Hann vill rýmka réttinn og gera hann fýsilegri fyrir ábúandann fyrst og fremst. Ég held að rétturinn verði mjög fýsilegur fyrir ábúandann í kjölfar þessara lagabreytinga og miklu líklegra að jarðir verði leigðar af þeim sem hafa verið að eignast þær. Ég vil bara taka það fram.

Réttur sveitarfélaga til að ráðstafa jörðum stenst vart stjórnarskrána, inngrip o.s.frv., og hefur oft verið mjög vafasöm ákvörðun hreppsnefnda og mikið dómstólamál hér. Ég held því að þetta horfi allt til réttrar áttar, hv. þingmaður.