Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 14:39:57 (5775)

2004-03-30 14:39:57# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka það að ég tel alveg tímabært að endurskoða þessi lög og það sé bara í hæsta máta rétt.

Í þessari 1. umr. legg ég fram þau ákveðnu stefnumarkandi atriði sem ég tel mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að endurskoða þessi lög, það sé hugað annars vegar að rétti ábúandans, hins vegar að rétti samfélagsins þar sem viðkomandi jörð er, að hafa afskipti, og enn fremur líka þá verndun og nýtingu á þeim auðlindum sem felast í viðkomandi jarðeign. Þessi atriði verða öll að vera þarna undir.

Varðandi það sem hv. þm. Drífa Hjartardóttir minntist á er einmitt verið að herða á frekar en hitt, að ábúandi geti breytt um búskaparhætti á jörð sinni.

Það stendur þarna, með leyfi forseta:

,,Nýmæli er um að ef ábúandi óskar eftir að gera verulegar breytingar á landbúnaðarstarfsemi á ábúðarjörð sinni skal hann sækja um leyfi hjá jarðareiganda. Sama gildir ef ábúandi vill hætta landbúnaðarstarfsemi sinni.`` --- Það er sem sagt kveðið á um þetta þarna.

Hv. þm. lagði mér þau orð í munn að ég vildi að allt land væri í ríkiseign. Það sagði ég ekki. Ég sagði að ég teldi enga ástæðu til þess að ríkið ætti að losa sig við jarðeignir annars vegar og hins vegar væri verið að ráðast á bændur í þjóðlendum, það væri ósamræmi í því. En óháð því þarf ríkið að marka sér stefnu með ríkisjarðir sínar og það gæti verið í hæsta máta eðlilegt að ríkið leysti ákveðnar jarðir til sín af ýmsum ástæðum, enda kveða þessi lög ekkert sérstaklega á um það.