Ábúðarlög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 15:09:00 (5782)

2004-03-30 15:09:00# 130. lþ. 90.3 fundur 782. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., AKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að biðja hv. þm. Drífu Hjartardóttur að hlusta betur á það sem sagt er ef hún hefur hugsað sér að gera athugasemdir. Ég minntist alls ekkert á að almannaréttur væri skertur af þeim sem hafa keypt jarðir en búa annars staðar. Ég var hins vegar að tala um svipmótið sem getur komið á byggðir landsins ef jarðir eru óbyggðar. Það er allt annað mál. Ég held að allir hljóti að kannast við það hversu leiðinlegt það er fyrir svipmót, og ég tók þéttbýlið sem dæmi, ef hluti byggðar er mannlaus, ljóslaus. Ég var heldur ekkert að tala um að sveitarstjórnir ættu að skylda tiltekna tegund af búskap á jörðum, en ég tel mikilvægt fyrir byggðir landsins að sá réttur sé í höndum sveitarstjórna að hlutast til um það að jarðir séu nýttar til byggðar ef þeim sýnist það mikilvægt fyrir viðkomandi byggðarlag.