Jarðalög

Þriðjudaginn 30. mars 2004, kl. 16:19:12 (5802)

2004-03-30 16:19:12# 130. lþ. 90.4 fundur 783. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 130. lþ.

[16:19]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þm. ætlar að taka þátt í andsvörum væri honum nær að hlusta á ræðu hv. þm. sem hann er að veita andsvör við. Ég sagði alls ekki í ræðu minni að sveitarstjórnir ættu að ráðstafa jörðum til þeirra sem þeim hugnaðist og ég taldi alls ekki endilega sjálfgefið að þetta ætti að vera með þeim hætti sem verið hefði í öllum tilvikum. Hins vegar tel ég mjög mikilvægt þegar menn taka svona stóran málaflokk upp að huga mjög vandlega að aðkomu sveitarfélaganna og hvort þessi lög breytt séu fullnægjandi varðandi hana eða hvort skerpa þurfi á þessu í öðrum lögum, því hlutur sveitarfélaganna er gríðarlega mikilvægur hvað almannaheill snertir, þ.e. hlutverk sveitarfélaganna gagnvart íbúum sínum og að þau standi vörð um hagsmuni þeirra. Það tel ég mjög mikilvægt og líka hvað varðar nýtingu á landsins gæðum sem fólgin eru í jörðum og jarðarafnotum. Þar erum við hv. þm. Jóhann Ársælsson greinilega ekki sammála. Ég tel hlutverk sveitarfélagsins mjög mikilvægt.