Afgreiðsla fjarskiptalaga úr samgöngunefnd

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 14:03:16 (5863)

2004-03-31 14:03:16# 130. lþ. 92.91 fundur 449#B afgreiðsla fjarskiptalaga úr samgöngunefnd# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég var að vitna í viðtal við hv. formann samgn. í gær þar sem segir að það hafi verið ágreiningur á milli Persónuverndar og ríkislögreglustjóra og það hefði þýtt að málið hefði orðið strand sem þýðir að ef nefndin hefði farið að taka upp tillögur ríkislögreglustjóra hefði málið orðið strand. Það kemur fram að formaður samgn. segir ágreining á milli lögreglu og Persónuverndar um vörslu slíkra gagna. Þetta kom fram í fréttum í gær þar sem hv. þm. er að bera það fyrir sig að Persónuvernd hafi verið á móti brtt. og þess vegna hafi nefndin ekki getað tekið þær upp. Þetta er mjög alvarlegt vegna þess að Persónuvernd kannast ekki við þetta og segir reyndar að hún sé sammála brtt. lögreglustjóra.

Hvers vegna í ósköpunum var þá hv. þm. að bera fyrir sig Persónuvernd í gær í fréttum? Reyndar er það svo að þegar farið var yfir nefndastörfin í samgn., sem ég lét líka gera í morgun, komu ekki fram neinar athugasemdir frá Persónuvernd varðandi brtt. frá ríkislögreglustjóra. Mér finnst mjög alvarlegt, herra forseti, ef hv. þm. er að skrökva að þjóðinni og þinginu og bera fyrir sig Persónuvernd þegar samgn. hefur ekki staðið sig í stykkinu með afgreiðslu á þessum málum eins og ljóslega hefur komið fram. Það er mjög alvarlegt og ég á ekki von á öðru en Persónuvernd láti heyra í sér um þetta mál.