Lífsýnatökur úr starfsfólki

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 13:48:49 (6001)

2004-04-01 13:48:49# 130. lþ. 93.95 fundur 454#B lífsýnatökur úr starfsfólki# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að hefja máls á umræðu á hinu háa Alþingi um lífsýnatöku úr starfsfólki. Hér er á ferðinni mikilvæg og bráðnauðsynleg umræða sem ég vona að stöðvist ekki innan veggja þings heldur endurómi og haldi áfram sem víðast um þjóðfélagið. Það var alveg með ólíkindum að heyra í síðasta ræðumanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Ég tel það mjög varhugavert þegar vinnuveitandi tekur sér það vald að geta kallað starfsmenn til rannsóknar hvenær sem er á vinnutíma og að starfsmenn séu látnir skrifa upp á samþykki fyrir þessu þegar þeir undirrita ráðningarsamning. Á sama tíma er hægt að fallast á rök vinnuveitanda eins og álversins í Straumsvík fyrir að þetta geti verið nauðsynlegt til að auka öryggi á hættulegum vinnustað. Ég get tekið undir það. Álvinnsla felur í sér mörg hættuleg störf þar sem menn verða að geta treyst vinnufélögum sínum til fullnustu. Hið sama má segja um mörg önnur störf. Það nýmæli að fyrirtækið skuli einhliða áskilja sér þennan rétt til lífsýnatöku úr starfsmönnum með skírskotun til öryggis gengur þó ekki upp að mínu mati nema fyrir hendi séu skýrar reglur um slíkt, reglur sem þá yrðu settar af hinu opinbera. Við erum að glíma hér við mál sem hefur ríka skírskotun til siðferðislegra sjónarmiða þar sem persónuvernd einstaklingsins vegur þungt.

Forseti. Ég lýsi furðu minni á að stjórnendur álversins telji sig í fullum rétti til að ákveða sisona að þeir geti hafið lífsýnatökur úr starfsmönnum sínum nánast upp úr þurru. Það getur varla staðist. Kjarni máls míns er sá að það er hægt að fallast á svona lífsýnatöku en þá aðeins með mjög ströngum skilyrðum og eftir skýrum reglum sem settar eru af hinu opinbera. Stéttarfélög ættu að hafa fullkominn rétt til eftirlits með svona sýnatökum til að tryggja réttindi starfsmanna.

Frú forseti. Fyrirtæki eiga ekki að komast upp með að stofna eftirlitskerfi til að fylgjast með starfsmönnum sínum án þess að fyllsta aðhalds sé gætt og réttinda fólks að sjálfsögðu líka í hvívetna.