Fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 22:25:01 (6121)

2004-04-05 22:25:01# 130. lþ. 94.16 fundur 855. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald# (hámarksgreiðslur, fjármögnun o.fl.) frv. 90/2004, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[22:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get spurt hv. þm. á móti hvort hann telji rétt og eðlilegt að eftir fæðingarorlofstöku sé þeim sem vinna hjá hinu opinbera greitt orlof en ekki þeim sem vinna á almennum vinnumarkaði. Þeir sem vinna á opinbera vinnumarkaðnum eru því að greiða fyrir orlofsgreiðslur annarra með sköttum sínum en fá þær ekki sjálfir. Mér finnst þetta mikið óréttlæti sem menn eiga að setjast yfir og leiðrétta vegna þess að þetta er mismunun og það var ekki meiningin með setningu laganna að mismuna fólki eftir því hvort það ynni á almenna vinnumarkaðnum eða hjá hinu opinbera. Það er meira að segja svo langt gengið að þeir sem vinna hjá hinu opinbera en eru félagar í ASÍ fá ekki orlofsgreiðslurnar eftir að hafa verið í fæðingarorlofi. Mér finnst því að menn verði að leiðrétta þetta þannig að hér sé um jafnræði að ræða milli aðila, enda er ASÍ eins og hefur komið fram búið að stefna Tryggingastofnun ríkisins fyrir þessa mismunun.

Varðandi að setja þak eða ekki þak var ég að vega og meta, eins og maður gerir gjarnan í 1. umr. um mál áður en það fer til meðferðar í nefnd, bæði kosti þess og galla og hvaða áhrif það gæti haft varðandi jafnrétti kynjanna til töku fæðingarorlofs. Ég velti upp þeirri hlið að það gæti haft þau áhrif að hálaunamenn færu síður í fæðingarorlof en hálaunakonur þó þær væru með tekjur þar yfir sem gæti leitt til þess að þær hefðu minni möguleika á að fara í hátt launaðar stjórnunarstöður. Þetta eru ein áhrifin sem menn verða að meta. Mér finnst rökin fyrir því að setja á þak sterkari, en okkur ber að skoða bæði atriðin í félmn.