Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 14:42:37 (6138)

2004-04-06 14:42:37# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst ræða hv. þm. vera nokkuð undarleg, með sama hætti og honum þótti ræða mín vera furðuleg en ég held að hann hafi misskilið hana afskaplega mikið. Ég var ekki að gagnrýna fyrrverandi utanríkisráðherra á nokkurn hátt. Ég var ekki að þakka mér að ýmislegt hefur breyst. Það hefur svo margt breyst í heiminum. Það hefur svo margt breyst á Íslandi. Við erum miklu virkari þátttakendur í alþjóðasamstarfi en nokkru sinni fyrr. Meginbreytingin var á árunum nokkurn veginn milli 1990 og fram á þennan dag og árunum fyrir 1990 þegar við ákváðum að semja okkur inn á Evrópska efnahagssvæðið 1989. Var ég að gagnrýna einhvern út af því? Var ég að gagnrýna fyrrverandi utanríkisráðherra í því sambandi? Þetta er einfaldlega eins og ég upplifi breytingarnar og ég held að það sé mikið til í því. Við tölum um að gerast aðilar að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, við höfum verið í forustu í Evrópuráðinu, við erum í forustu í Alþjóðabankanum og svo mætti lengi telja. Hv. þm. má því ekki taka hlutunum með þessum hætti.

Hann eyddi hins vegar miklum tíma í að segja: Við styðjum víst NATO. Við styðjum víst lögregluna. Af hverju þarf þingmaðurinn að eyða tíma sínum í það? Vegna þess að margir draga það í efa. Samf. hefur gagnrýnt eflingu lögreglunnar. Samf. hafði það eitt sinn á stefnuskrá sinni að segja sig úr hernaðarbandalögum. Ég var ekki að tala um að Samf. hefði sagt eitt né neitt um al Kaída. Af hverju þarf þingmaðurinn að taka þetta allt saman til sín? Ég nefndi ekki Samf. á nafn en svo virðist sem allt sem ég sagði til að gagnrýna aðra taki þingmaðurinn til sín. Það segir nokkuð um hvernig hann hugsar.