Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 16:36:34 (6163)

2004-04-06 16:36:34# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Frú forseti. Ég geri að sérstöku umtalsefni málefni norðurslóða. Hæstv. utanrrh. nefndi í ræðu sinni formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu en þeirri formennsku til tveggja ára lýkur nú í haust. Ég tek heils hugar undir orð ráðherra um hversu árangursrík forusta Íslands hefur verið innan ráðsins. Við getum verið stolt af framgöngu fulltrúa okkar á þessum vettvangi og þeim skýru áherslum sem formennska Íslands hefur mótað.

Á þeim ráðstefnum og fundum sem ég hef setið á liðnu ári um málefni norðurslóða hef ég alls staðar fengið mjög skýr skilaboð um að framvarðarsveit Íslands njóti mikils trausts innan norðurskautssamstarfsins.

Ég vil um leið nota þetta tækifæri til að vekja athygli þingheims á helstu málum í brennidepli innan þingmannanefndar um norðurskautsmál. Það er óhætt að segja að það mál sem einna helst hefur vakið athygli og umræður á liðnu ári á þessum vettvangi sé hin viðamikla úttekt á loftslagsbreytingum á norðurslóðum sem nú er unnið að. Þetta er eitt metnaðarfyllsta og stærsta verkefni sem Norðurskautsráðið hefur lagt í, verkefni sem nú þegar hefur hlotið mikla eftirtekt á alþjóðlegum vettvangi en rannsóknin mun í heild sinni líta dagsins ljós í nóvember í haust.

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á nær alla þætti samfélags í norðri, ekki einungis umhverfi, dýralíf og gróðurfar, heldur einnig félags-, menningar- og efnahagslega þætti mannlífs. Það er skemmst frá því að segja að rannsóknir benda til hraðra loftslagsbreytinga á norðurslóðum næstu áratugi. Jafnvel íhaldssömustu niðurstöður benda til örrar bráðnunar íss og jökla sem og breytinga á hitastigi sjávar en slíkt hefur augljóslega afleiðingar hér á landi. Vísindamenn geta nú aðgreint loftslagsbreytingar af náttúrulegum völdum frá breytingum sem komnar eru til af manna völdum. Svo er komið að jafnvel þótt allri framleiðslu á koltvísýringi væri hætt nú þegar tæki það náttúruna, loftslag og sjávarföll nokkrar aldir að komast aftur í jafnvægi. Allar spár sýna að um næstu aldamót verður norðurskautshafsvæðið án íss og klaka að sumarlagi. Meðalhitastig á norðurslóðum er nú að mati vísindamanna það hæsta í þúsund ár en áætlað er að þær breytingar sem eiga sér stað á 10 ára tímabili á norðurskautssvæðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar í heiminum. Plöntutegundir og annað gróðurlendi færist æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist.

Í upphafi var áætlað að vinnuhópur verkefnisins mundi skila af sér þremur mismunandi skýrslum í haust. Í fyrsta lagi er um að ræða umfangsmikla vísindalega úttekt þar sem fram koma rannsóknir á loftslagsbreytingum fyrr og nú sem og spár um hverju búast megi við á næstu áratugum. Í öðru lagi á að koma út styttri skýrsla ætluð almenningi þar sem fram koma á skýru og skiljanlegu máli helstu niðurstöður rannsóknarinnar. Í þriðja lagi átti að fylgja skýrslunni greinargerð um stefnumótun þar sem áþreifanlegar tillögur væru settar fram og ákveðinni stefnumörkun beint til stjórnvalda norðurskautsríkja. Svo virðist hins vegar sem Bandaríkjastjórn hafi innan Norðurskautsráðsins nýverið sett sig mjög á móti því að þetta stefnumótunarskjal verði birt í haust. Ég spyr hæstv. utanrrh. um stöðu þessara mála og hvort Bandaríkjamenn séu enn við þetta heygarðshorn.

Niðurstaða skýrslunnar fær án efa alþjóðlega athygli og kallar á pólitísk viðbrögð úr öllum áttum. Næsta þingmannaráðstefna um norðurskautsmál verður haldin í Nuuk á Grænlandi 3.--6. september nk. og þar verða loftslagsbreytingar og stefnumótun í brennidepli.

Annað verkefni sem beðið er með eftirvæntingu er fyrirhuguð skýrsla um sjálfbæra samfélagsþróun á norðurslóðum. Hún mun fjalla um félagslega, menningarlega og efnahagslega velferð íbúa norðurskautsins en hingað til hafa ekki verið gerðar rannsóknir sem beinast eingöngu að íbúum norðurskautssvæða og sjálfbærri þróun. Þingmannanefndin átti upprunalega frumkvæði að gerð skýrslunnar og vann mikla undirbúningsvinnu á frumstigi málsins. Það er vonandi að skýrslan geti í framhaldinu nýst vel við pólitíska stefnumótun á norðurslóðum.

Þriðja helsta viðfangsefni þingmannanefndarinnar er upplýsingatæknin og þá sérstaklega fjarkennsla og fjarlækningar. Það er ljóst að bætt tölvunotkun og farkennsla getur orðið íbúum norðursins að miklu gagni í framtíðinni. Dagana 20.--21. október sl. haust stóð formennska Íslands í Norðurskautsráðinu fyrir stórri alþjóðlegri ráðstefnu á Akureyri um þessi mál og í lokaályktun ráðstefnunnar var lögð áhersla á að allir þjóðfélagsþegnar við norðurskaut gætu í framtíðinni hlotið aðgang að netinu á viðráðanlegum kjörum. Norðurskautsríkin voru hvött til að skapa lagaumhverfi sem tryggir jafnan aðgang fólks að upplýsingatækni.

Lokaályktun ráðstefnunnar og þau sjónarmið sem þar komu fram eru nú í frekari vinnslu og þingmannanefndin vinnur áfram að málinu.

Það er af fjölmörgum öðrum málum að taka en ég læt staðar numið að sinni. Það er mikilvægt að umræða um utanríkismál snúist um sem flest af þeim fjölmörgu málefnum sem alþjóðasamstarf tekur til. Á þessari stundu erum við auðvitað mjög upptekin af baráttunni gegn hryðjuverkum eftir hina hörmulegu atburði á Spáni. Sú barátta verður áfram eitt af mikilvægustu verkefnum á alþjóðlegum vettvangi þegar litið er til framtíðar. Það hljótum við að geta verið sammála um. Þau mál sem Norðurskautsráðið vinnur að, eins og t.d. loftslagsbreytingar og sjálfbær mannlífsþróun, verða með tímanum víðfeðm öryggismál og snerta lífshætti okkar allra. Það er í mínum huga enginn vafi á því að ýmis þeirra verkefna sem eru í brennidepli í norðurskautssamstarfinu nú muni með tímanum hafa bein pólitísk áhrif, bæði hér heima og erlendis.