Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:23:51 (6175)

2004-04-06 17:23:51# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði í ræðu sinni að styrkja þyrfti hin öflin í þessum löndum. Ég er algerlega sammála hv. þm. og ég sagði í ræðu minni að sameiginlegur varnarviðbúnaður vestrænna ríkja hefði verið mest ráðandi um að kalda stríðinu lauk. Hvað gerðist í lok kalda stríðsins? Þær þjóðir sem voru undir járnhrammi kommúnismans sneru sér til Vestur-Evrópu og sóttu um aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu. Þessum þjóðum var tekið opnum örmum og þeim komið til hjálpar og lýðræðið þar með byggt upp í þeim hluta Evrópu og er að sjálfsögðu mikilvægasta mál sem hefur stuðlað að friði í Evrópu.

Hvað er að gerast í Afganistan? Þar er verið að styðja við bakið á hinum öflunum, byggja upp skóla, byggja upp heilsugæslustöðvar og koma milljónum afganskra barna til menntunar. Hvað er verið að gera í Írak, hvernig sem menn líta á árásina á Írak? Þar er verið að vinna að því að ná samstöðu með íröksku þjóðinni um lýðræðislega uppbyggingu. Það gengur á ýmsu þar, það er rétt, en þó er verið að vinna að því að fólkið í þessu hrjáða landi taki mál í eigin hendur og byggi upp lýðræðislegt ríki í Írak þar sem mannréttindi eru virt og réttindi kvenna og börnum komið til menntunar. Þetta er það sem er að gerast samhliða baráttunni gegn hryðjuverkum.