Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 17:26:08 (6176)

2004-04-06 17:26:08# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Margt af því sem hæstv. utanrrh. sagði í andsvari sínu er auðvitað verið að reyna að gera. En það er líka verið að klóra yfir þá staðreynd að það var byrjað á vitlausum enda. Það er enginn sómi að því að ráðast inn í lönd með vopnavaldi og láta sprengjum rigna yfir þjóðir og saklausa borgara og segja: Við erum bara að þessu af því að við erum svo góð, af því að við ætlum að hjálpa ykkur að byggja upp skóla, af því að við ætlum að hjálpa ykkur að bæta réttindi kvenna.

Það var einu sinni svo að í Írak stóðu réttindi kvenna hvað hæst í þeim heimshluta sem við fjöllum hér um. Það er ekkert sem réttlætir að fara með því valdi sem vesturveldin fóru inn í Írak eða Afganistan og tilgangurinn sem hæstv. utanrrh. málar fögrum litum núna er ekki göfugur. Það er ekki sannfærandi málflutningur, frú forseti, sem hæstv. utanrrh. viðhefur. Við eigum að standa saman um það, þjóðir í vesturálfu, að reyna að efla lýðræði í öllum heiminum. Við verðum hins vegar að opna augu okkar fyrir því að það verður ekki gert með vopnavaldi. Það var ekki gert með vopnavaldi í Austur-Evrópu. Það er fagnaðarefni að Austur-Evrópa skuli smám saman vera að færa stjórnarfar sitt í átt til lýðræðis þó svo auðvitað þurfi þær þjóðir enn að ganga langan veg til þess að ná þeim árangri sem eftirsóknarverðastur er. Við eigum líka að líta í eigin barm. Kannski erum við komin allt of langt út á brautir neyslukapphlaupsins, út á brautir vopnakapphlaupsins, út í að láta hluti villa okkur sýn og gleyma hinum eiginlegu markmiðum lífsins og tilverunnar.